Starfskynning frá Hollywood og Haraldarhús

Í gær reyndi ég að segja eitthvað gáfulegt um hugmyndir unglinga um framtíðarstarf. Það er svo sem ekkert nýtt að flestir sem eru  á sextánda ári eigi sér svipaða drauma. Á þessum aldri hefur fólk mikla þörf fyrir að aðlagast hópnum og fylgja tískunni. Nú til dags er tískan að miklu leyti búin til í Hollywood og fleiri stöðum þar sem vinsælar kvikmyndir verða til. Draumaverksmiðjan sér að miklu leyti um starfskynningu fyrir unglinga og varla er von að sú kynning henti að öllu leyti íslenskum vinnumarkaði. En vonandi vaxa flestir upp úr því að láta sjónvarp og kvikmyndir stjórna viðhorfum sínum áður en þeir ljúka skólagöngu og fara fyrir alvöru að reyna að koma sér áfram í atvinnulífinu.

Eins og venjulega á miðvikudagskvöldum fór ég á fund hjá Rótarýklúbbi Akraness í gærkvöldi. Að þessu sinni var fundurinn haldinn í húsinu að Vesturgötu 32 á Akranesi sem Haraldur Böðvarsson (1889–1967) og Ingunn Sveinsdóttir (1887–1969) byggðu og bjuggu í frá árinu 1925. Gestgjafinn, Haraldur Sturlaugsson, hefur breytt þessu veglega húsi sem afi hans og amma byggðu, í safn. Þarna er mikill fjöldi ljósmynda og minja sem segja heillar aldar sögu um útgerð og fiskvinnslu og hin miklu umsvif Haraldar Böðvarssonar og fyrirtækja sem hann stofnaði.

Það kannast víst flestir við sönginn

Kátir voru karlar
á kútter Haraldi
til fiskiveiða fóru
frá Akranesi.

Og allir komu þeir aftur
og enginn þeirra dó.
Af ánægju út að eyrum
hver einasta kerling hló.

Sennilega vita færri að kútter þessi, sem gerður var út í lok 19. aldar, heitir eftir athafnamanninum Haraldi Böðvarssyni. Böðvar faðir hans, sem var kaupmaður hér á Skaga, átti skipið og gaf því nafn eftir syni sínum þegar hann var 8 ára. Haraldur eignaðist svo sinn fyrsta bát, sem var sexæringur, árið 1906. Einn þeirra gripa sem prýðir „safnið“ að Vesturgöru 32 er nákvæmt líkan af kútter Haraldi.Lokað er fyrir ummæli.