Starfsval unglinga og öskustó nútímans

Í Morgunblaðinu í dag er greint frá niðurstöðum rannsóknar sem Námsmatsstofnun vann fyrir samtök atvinnulífsins. Kannað var, meðal 15 ára unglinga, hvaða störf þeir hyggjast stunda þegar þeir verða fullorðnir. Flestir ætla að verða læknar (10%), arkitektar (7%), sálfræðingar (5%), viðskiptafræðingar (4%) og lögfræðingar (4%), kennarar (3%) og leikarar (3%). Þeim sem ætla að verða tölvufræðingar hefur fækkað í 2%, en voru 12% árið 2000 þegar sams konar könnun var gerð og 6% árið 2003.

Þorri 15 ára unglinga stefnir á sömu greinar. Ef væntingar þeirra ganga eftir verður mannekla í flestum störfum en fáránlegt offramboð í þeim fáu sem eru í tísku. Samkvæmt frásögn Morgunblaðsins ætla 60% þeirra í greinar sem veita um 15% mannaflans vinnu.

Niðurstöðurnar koma þeim sem vinna með unglingum svo sem ekki á óvart. Raungreinar virðast ekki eiga upp á pallborðið og sárafáir ætla sér að vinna við tækni eða iðnað. Skólafólk hefur oft velt vöngum yfir þessu. Hvers vegna bregst ungt fólk ekki við skorti á tæknimönnum og háum launum í tæknigreinum með því að þyrpast í þær í stað þess að flykkjast í nám þar sem er ofgnótt af fólki fyrir? Hvernig stendur til dæmis á því að krakkar sem koma upp úr tíundu bekkjum fara hópum saman á félagsfræðabraut en sárafír velja iðnnám? Ná skilaboð markaðarins um skort á tæknifólki ekki til unglinga?
Í starfi mínu sé ég mörg dæmi um nemendur sem gefast upp á miðri leið í stúdentspróf vegna þess að þeim gengur illa að læra greinar eins og stærðfræði, þýsku eða sögu og hafa engan áhuga á þeim. Margir af þessum krökkum mundu ná tökum á iðnnámi, ljúka því á 3 til 4 árum og fljúga inn í vel launuð störf. En óklárað stúdentspróf veitir lítil sem engin fríðindi á vinnumarkaði.

Á þessu undarlega misræmi milli framboðs og eftirspurnar á vinnumarkaði og einsleitum og að mörgu leyti óraunhæfum hugmyndum unglinga um framtíðarstaf eru sjálfsagt margar skýringar. En ég held að ein vegi þyngst. Hún er sjónvarpið.

Sjónvarpið er ekki bara öskustó nútímaheimilis þar sem kolbítarnir liggja, heldur er það gluggi að heimi vinnandi fólks (annars en kennara sem þeir sjá í skólanum, afgreiðslufólks sem þeir hitta í búðum og flokksstjóra sem þeir kynnast í unglingavinnunni). Þeir sjá foreldra sína sjaldan í vinnunni og koma ekki mikið inn í fyrirtæki. Hugmyndir þeirra um vinnu eru að öllum líkindum mest úr sjónvarpinu. Þar eru læknaþættir og þar eru lögfræðingar sem brillera í amerískum réttarsölum og leikarar sem verða frægir. En hetjurnar í sjónvarpinu eru sjaldan rafvirkjar eða tæknimenn.3 ummæli við “Starfsval unglinga og öskustó nútímans”

  1. Einar ritar:

    Ég veit svo sem ekki hvernig málum er háttað í Skandinavíu en Danir gerðu vinsæla þætti sem fjölluðu um leigubílstjóra og sú sería sem lengst hefur gengið í sænsku sjónvarpi heitir Kvennafangelsið. Reikna þó ekki með að þetta hafi haft afgerandi áhrif á starfsval unglinga þar ytra. En ég las einhvers staðar um daginn að nú vildu allir verða meinafræðingar vestan hafs, þökk sé CSI.

  2. Atli ritar:

    Ég býst ekki við að þátturinn um kvennafangelsið hafi sýnt hlutskipti fanganna sem eftirsóknarvert. En fjöldi þátta sýnir lækna og lögfræðinga sem hetjur. Hins vegar eru verkfræðingar það mun sjaldnar (þó í reynd gegni þeir margir vel launuðum ábyrgðarstörfum).

  3. Máni ritar:

    Í Prison Break er aðalhetjan byggingarverkfræðingur. Í Indipendence day er aðalhetjan sjónvarpsviðgerðamaður. Ein af aðalhetjunum í Lost vann hjá kassagerð áður en hann strandaði á eyðieyju. Svona mætti lengi telja.