Enn um fjármál framhaldsskóla og hagræna hvata

Í fyrradag benti ég að við núverandi fyrirkomulag á greiðslum úr ríkissjóði borgi sig beinlínis fyrir framhaldsskóla að kaupa nemendur til að mæta í próf til málamynda. En það er til lítils að benda á galla á núverandi kerfi án þess að gefa einhverja vísbendingu um leiðir til úrbóta.

Nú er borgað fyrir hverja einingu sem nemandi mætir til prófs í. Ef borgað væri fyrir hverja einingu sem nemandi byrjar í þá væri ýtt undir að skólar létu nemendur byrja í meira námi en þeir ráða við og draga svo saman seglin þegar líður á önnina. Ef til vill væri illskárra að blanda þessum leiðum saman en að halda sig við aðra þeirra eingöngu: Það mætti til dæmis hugsa sér að ríkið borgi skólum í hlutfalli við meðaltalið af fjölda eininga sem nemendur byrja í og fjölda eininga sem þeir ganga til prófs í.

Það er sama hvort borgað er fyrir einingar í byrjun annar, við lok annar eða meðaltal af þessu tvennu– í öllum tilvikum ræðst greiðsla til skóla af einfaldri talningu sem hefur fremur losaraleg tengsl við markmið skólastarfsins sem er að auka hæfni, getu eða kunnáttu nemendanna sem mest.

Ef það væri raunhæfur kostur að mæla hæfni hvers nemanda við upphaf og lok skólagöngu mætti kannski hugsa sér að greiða skólum í hlutfalli við hvað hún eykst mikið. Þetta er þó ekkert einfalt mál. Hvað með ungling sem byrjar með meðalhæfni en eyðileggur huga sinn með hassneyslu samhliða skólagöngu? Hæfni hans mælist þá minni við lok en við upphaf. Á skólinn þá að borga með honum eða á að slumpa á hvað hæfni hans hefði minnkað miklu meira ef hann hefði bara verið í hassi í stað þess að skipta tíma sínum milli neyslu og skólagöngu?

Sósíalísk hagfræði, þ.e. sú list að úthluta fé úr opinberum sjóðum af skynsamlegu viti, er ansi erfið. Kannski verður hún aldrei annað en rugl og vitleysa. Ég hef þó grun um að hún geti virkað skár í smáum einingum en stórum þar sem þeir sem ráða fjárveitingum eru nærri vettvangi, þekkja til og eiga sjálfir eitthvað í húfi. Kannski ættu sveitarfélög að taka við rekstri framhaldsskólanna.

Kannski ætti einfaldlega að selja skólana og kannski ætti hið opinbera að hætta alveg að úthluta neinu fé til þeirra. Ríkið getur áfram borgað fyrir kennslu unglinga með því einfaldlega að afhenda hverju barni sem lýkur grunnskóla sjóð sem aðeins má nota til að kaupa menntun. Þetta yrðu eins konar skömmtunarseðlar, þ.e. ávísanir sem einungis skólar gætu skipt í venjulega peninga.

Kannski ætti hver nemandi að fá 5 ávísanir sem duga fyrir ársnámi hver. Kannski ætti að hafa flóknara kerfi þar sem nemandi sækti um styrk til ríkisins á hverju ári sem hann er í skóla og fengi hann á formi svona skömmtunarmiða. Útfærslan gæti verið á marga vegu.

Ef skólar fá einfaldlega einn miða með hverjum nemanda á ári og geta svo skipt á honum og einhverri ákveðinni peningaupphæð þá verður keppnin hjá skólunum einfaldlega um að laða til sín sem flesta nemendur en ekki um að láta þá byrja í meira námi en þeir ráða við eða gangast undir málamyndanámsmat í greinum sem þeir eru hættir að stunda. Kerfi af þessu tagi hefði margvíslegar aðrar afleiðingar og ég get ekkert frekar en aðrir séð fyrir hverjar þær yrðu. Eina leiðin til að komast að því er líklega að prófa.

Eins og ég hef fært rök að er núverandi kerfi slæmt og því fullt vit í að prófa eitthvað annað.Lokað er fyrir ummæli.