Þriðja færsla um trúarbrögð og Darwinisma

Ég er enn að hugsa um Darwins Cathedral eftir Wilson sem hefur verið umfjöllunarefni í tveim síðustu færslum. Bókin fjallar mest um trúarbrögð, en líka um hvernig samfélög fá einstaklinga til að haga sér þannig að verði öllum til góðs, gagnlegt fyrir heildina. Hversu farsælt samfélag er veltur sjálfsagt mest á þessu, að hver og einn fylgi reglum sem eru öllum til góðs, líka þegar sá einstaklingur sem í hlut á gæti sjálfur hagnast á að brjóta þær.

Í sumum tilvikum er hægt að koma hlutunum þannig fyrir að einstaklingar hagnist sjálfir á að þjóna almannahag. Markaðshagkerfi er í aðalatriðum svoleiðis fyrirkomulag. En í sumum tilvikum er óhægara um vik að virkja sjálfsbjargarviðleitni manna til hagsbóta fyrir heildina. Í dæminu sem ég ræddi í síðasta pistli, um þá sem hjúkruðu sjúkum þegar farsóttir gengu í fornöld, er t.d. vandséð hvernig slík miskunnsemi þjónaði veraldlegum hagsmunum þeirra sem lögðu sjálfa sig í hættu með því að sinna fólki með smitandi sjúkdóma.

Ég held að það sé fremur lítið vitað um hvaða ráð virka til þess að fá menn til að þjóna heildarhag þótt það komi sér illa fyrir þá sjálfa. Kenning Wilsons um að samfélögin noti trúarbrögð til að gera þetta er að mínu viti ekki vitlausari en hver önnur. En hún virðist samt ekki geta verið öll sagan.

Á Norðurlöndum er fremur sjaldgæft að embættismenn þiggi mútur. Í sumum öðrum löndum er það algengt. Hér er líka sjaldgæft að embættismenn steli verðmætum sem þeim er trúað fyrir. Sums staðar er það regla. Náungi frá Kenya sem ég kannast aðeins við og hefur dvalið hér landi sagði mér einu sinni frá tilraunum borgaryfirvalda í Nairobi til að sótthreinsa vatn með því að setja klór í það. Þær mistókust því borgarstarfsmenn hentu ekki verðmætum sem hægt var að selja ofan í vatn. Hegðun þeirra var að vissu leyti rökrétt. Þeir er fátækir og hví skyldu þeir ekki selja sótthreinsunarefnin til að kaupa mat handa eigin börnum frekar en að henda þeim í vatnsból til að forða annarra manna börnum frá að deyja úr iðrakveisu?  Þessi rökrétta hegðun þeirra á sinn þátt í basli og bágindum þarlendra og þetta er svona hjá þeim þrátt fyrir mjög sterk ítök trúarbragða.

Kannski virka trúarbrögð ekki til að stjórna hegðun fólks nema þau séu samofin siðum og menn finni fyrir þrýstingu frá hópnum og þá er spurning hvort siðirnir og hópþrýstingurinn duga ekki ein og sér.13 ummæli við “Þriðja færsla um trúarbrögð og Darwinisma”

 1. Gunnar ritar:

  Leikmanni eins og mér finnst sannfærandi að náttúruval eigi sér stað á fleiri en einum skala, en ekki einvörðungu á genasviðinu.
  Ef mér skjátlast ekki hafna sumir fræðimenn því og liggur þar beinast við að nefna Richard Dawkins. Það væri gaman að vita á hvaða forsendum þeir gera það.
  Hefur þú kynnt þér það?

 2. Atli Harðarson ritar:

  Ég hef lesið Dawkins og hann hefur býsna góð rök fyrir því að hópval hafi undir flestum venjulegum kringumstæðum fremur lítil áhrif en hann hafnar alls ekki að náttúruval hafi áhrif á fleira en arfgenga eiginleika einstaklinga. Hann er jú upphafsmaður hugmyndanna um mín (e. meme), þ.e. að hægt sé að skýra menningarfyrirbæri, siði (og annað sem “erfist” með þeim hætti að menn hermi hver eftir öðrum) með náttúruvali.

 3. Skúli ritar:

  Sæll Atli. Norðurlanda-heilkennið getur kallað á skemmtileg heilabrot. Þessi útkjálki Evrópu hefur þróað með sér ákveðna sameiginlega þætti í menningu og stjórnmálum. Í samhengi trúarbragðanna er fróðlegt að velta því fyrir sér hver áhrif lútherstrúar og þ.m. Hússpjaldsins hafa verið á þessi landsvæði. Viljinn til þess að þjóna heildinni gæti að einhverju leyti verið runninn frá þeim rótum.

 4. Atli Harðarson ritar:

  Vinnusiðferði Norðurlandabúa og góður agi í stjórnsýslu og víðar á nokkuð örugglega að nokkru rætur að rekja til Lútherstrúar og píetisma en getur verið að ræturnar hafi enn áhrif eftir að flestir eru hættir að taka þennan gamla stranga kristindóm mjög alvarlega?

 5. Skúli ritar:

  Þetta eru auðvitað afskaplega ónákvæm fræði en að því gefnu að menningin beri merki aldalangrar með lútherskri kristni (fyrir og eftir píetisma) má vel vera að einkennin séu enn til staðar á vissum sviðum.

  Svo kann að vera að breytt afstaða t.d. til velferðarkerfisins með aukinni misnotkun geti verið eitt merki þess að uppruninn sé farinn að verða óskýr.

  Lútherska þjóðkirkjan er samt eina samkenni Norðurlandanna fimm, sem mér dettur í hug!

 6. Atli ritar:

  Norðurlöndin hafa fleiri samkenni. Eitt er að þjóðernisstefna í þessum löndum tengdist fasisma mun minna en sunnar í Evrópu og fékk því ekki sama óorð á sig og víða annars staðar. Það er a.m.k. mögulegt að þjóðernisstefna eigi sinn þátt í að skapa samkennd og ýta undir vilja til að laga hegðun sína að almannahag.

 7. Matti ritar:

  Eiga norðurlöndin það ekki líka sameiginlegt að vera tiltölulega heiðin? Svona fyrir utan Færeyjar og hluta Noregs?

 8. Atli ritar:

  Þetta er erfið spuring? Ég hugsa að á allra síðustu árum hafi dregið úr áhrifum kirkjunnar á Norðurlöndum en hvort íbúarnir eru “heiðnari” en aðrar Evrópuþjóðir veit ég ekki. (Þeir er samt nokkuð örugglega ekki eins trúaðir og Bandaríkjamenn.)

 9. skúli ritar:

  Norðurlöndin eiga það a.m.k. sameiginlegt að bróðurpartur íbúanna tilheyrir umburðarlyndri og frjálslyndri þjóðkirkju. Það er í fljótu bragði eina ytra samkennið sem þau hafa. Þau eru e.t.v. “”heiðin”" í þeirri merkingu að þar er ekki mikið um öfgafulla trúarsöfnuði sem sýnir að mínu mati hversu mikilvægt mótvægi slík kirkjan getur verið.

 10. Matti ritar:

  Er ekki dálítil hætta á að í ályktun Skúla sé fólgin valkvæm hugsun? Vissulega eru umburðarlyndar og frjálslyndar þjóðkirkjur á norðurlöndum, en hvað um það? Margt annað sameinar þessi löng og það er ekki eins og umburðarlyndið og frjálslyndið eigi sér langa sögu á þessum löndum. Fyrir fáeinum áratugum var til dæmis ekkert umburðarlyndi í þessum löndum gagnvart samkynhneigð og ekki voru íslendingar umburðarlyndir gagnvart þeldökkum bandarískum hermönnum lengi vel.

  En umburðarlyndið og frjálslyndið hefur stóraukist síðustu tvo-þrjá áratugi. Varla eignar Skúli þjóðkirkjunum þá þróun!

 11. Atli ritar:

  Um Norðurlönd sjá: http://this.is/atli/textar/rabb/NORDURLOND.html

 12. Skúli ritar:

  Já, það er líkega rétt að umburðarlyndið hefur aukist, góðu heilli, á síðustu árum.

  Sem valkvæður þjóðkirkjumaður sting ég þá upp á þeirri skýringu að í einsleitu bændasamfélagi hafi ekki reynt svo mjög á umburðarlyndið og því hafi það kostað nokkur átök þegar á til kastanna kom.

  En sú frjálslynda boðun sem kirkjan stóð fyrir - og fann sér farveg á ýmsu sviði, s.s. í framfaramálum, virðingu við fornan sið, móttökum ýmissa trúarhópa (únítara, mormóna oþh.) - hafi verið sá jarðvegur sem umburðarlyndi samtímans vex upp úr.

  Og ekki andmæla mér aftur, Matti.

 13. Skúli ritar:

  ;>)