Enn um trúarbrögð og Darwinisma

Í bókinni Darwins Cathedral eftir D. S. Wilson sem ég sagði frá í gær eru mörg dæmi tekin um hvernig trúarbrögð hafa fest sig í sessi með því að bæta afkomu hópa eða þjóða. Eitt af dæmunum sem hann ræðir eru frumkristnir söfnuðir í Rómaveldi sem stækkuðu mjög hratt. Fyrir þessu rekur hann ýmsar ástæður. Ein er að trúin bannaði útburð barna svo meðal kristinna voru konur álíka margar og karlar en meðal Rómverja, sem aðhylltust fjölgyðistrú, voru karlar talsvert (sumir segja allt að 30%) fleiri en konur því stúlkubörn voru oftar borin út en sveinbörn. Mannfjölgun ræðst mest af fjölda heilbrigðra kvenna svo þetta varð til þess að kristnum fjölgaði meir en þeim sem blótuðu Júpíter og Mars.

Annað sem varð til þess að kristni vann á var að þegar drepsóttir gengu yfir voru kristnir menn öðrum líklegri til að liðsinna sjúkum í eigin hópi. Á fyrstu þrem öldum eftir upphaf okkar tímatals gengu tvívegis drepsóttir í Róm sem felldu á bilinu fjórðung til þriðjung manna. Wilson vitnar í fornar heimildir fyrir því að kristnir menn hafi fært sjúkum vatn og vistir og reynt að hjúkra þeim en aðrir hafi fremur reynt að einangra þá sem veiktust til að draga úr smithættu. Einnig tíundar hann álit vísindamanna þess efnis að í þessum tilvikum hafi viðleitni til að hjúkra sjúkum fremur en einangra þá líklega til að fækkað dauðsföllum mjög mikið, jafnvel um tvo þriðju.

Auðvitað sinntu frumkristnir ekki sjúkum vegna þess að þeir hafi reiknað út að mannslífin sem tækist að bjarga með því væru mun fleiri en þau sem færust vegna þess að hjúkrunarfólk smitaðist af þeim sjúku. Þeir hafa sjálfsagt frekar gert það vegna þess að meistari þeirra sagði:

Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni … mun hann … skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri. Og … segja við þá til hægri: Komið þér, hinir blessuðu … Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, … sjúkur og þér vitjuðuð mín, …

Þá munu þeir réttlátu segja: Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta … Og hvenær sáum vér þig sjúkan … og komum til þín? Konungurinn mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.

Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans. Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, … ég var sjúkur … en ekki vitjuðuð þér mín.

Þá munu þeir svara: Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan eða … sjúkan … ? Hann mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Það allt sem þér gjörðuð ekki einum hinna minnstu bræðra minna, það hafið þér ekki heldur gjört mér. Og þeir munu fara til eilífrar refsingar, en hinir réttlátu til eilífs lífs.

Kenning Wilsons er að Kristni hafi unnið á og orðið ríkjandi vegna þess að trú kristinna manna hvatti til hegðunar sem varð til þess að þeim fjölgaði meira en öðrum.Lokað er fyrir ummæli.