Darwinismi og trúarbrögð

Fyrir um það bil einu á hálfu ári síðan skrifaði ég fjórar greinar um Darwin og darwinisma sem birtust í lesbók Morgunblaðsins (þær heita Lífríkið gert skiljanlegt, Félagslegur darwinismi, Eigingjarnir erfðavísar og Apamál og óvinsældir og liggja frammi á http://this.is/atli/). Síðan þá hef ég við og við litið í bækur um þróunarkenninguna og þá endurvakningu darwinisma sem átt hefur sér stað í mannvísindum undanfarin ár.

Meðal þess merkilegasta sem ég hef fundið af bókum um þetta efni er Darwin’s Cathetdral – Evolution, Religion, and the Nature of Society eftir David Sloan Wilson. Í bókinni reynir Wilson að skýra trúarbrögð út frá gildi þeirra fyrir afkomumöguleika hópa eða þjóða. Hann styðst jöfnum höndum við trúarbragðasögu, rannsóknir félags- og mannfræðinga og nýjustu kenningar í þróunarlíffræði (m.a. um hópval, þ.e. hvernig eiginleikar sem stuðla að viðgangi hóps, fremur en þeirra einstaklinga sem hafa þá í ríkustum mæli, geta undir tilteknum kringumstæðum unnið á fyrir náttúruval).

Að áliti Wilsons eru trúarbrögð flókin kerfi skoðana, stofnana og hátternis sem fá einstaklinga til að haga sér þannig að hópurinn sem þeir tilheyra komist vel af. Dæmin sem hann tekur eru mörg. Frá trú á vatnaguði á Balí í Indónesíu til sögu gyðinga í Evrópu, frá frumkristni í Róm til blómatíma Genfar undir stjórn Kalvínista.

Eftir því sem ég best fæ séð ganga skýringar hans vel upp. Samfélag sem hefur lífvænlega siði, hvetur til barneigna, verndar börn sín og kemur þeim til manns, vinnur gegn hegðun sem spillir efnahag og afkomumöguleikum o.s.frv. verður að öðru jöfnu fjölmennt og heldur áfram að vera til um langan aldur. Wilson skýrir tilveru trúarbragða út frá þessu. Það hafa væntanlega orðið til margs konar siðaðboð og margs konar kerfi til að fá fólk til að hlýða þeim. Flest eru útdauð. Þau sem hafa verið til lengi eru það flest vegna þess að þau eru lífvænleg í þessum skilningi.Lokað er fyrir ummæli.