Loftslagsmálin

Fyrir nokkru skrifaði ég pistil um hlýnun af mannavöldum og hvað leikmaður á að halda um þau mál. Set hann hér fyrir neðan til upprifjunar.

Fyrir stuttu birtust merkilegar hugmyndir um tengsl milli veðurs og virkni sólar á bloggi Ágústs Bjarnasonar verkfræðings. Skrif Ágústs byggja á kenningum Henrik Svensmark sem starfar hjá dönsku geimrannsóknarstofnuninni en starfaði áður hjá dönsku veðurstofunni. Um rannsóknir Svensmark má lesa í bókinni The Chilling Stars: A New Theory of Climate Change. Kenningar hans snúast um sveiflur í virkni sólar og geimgeislun sem jörðin verður fyrir og áhrif þessa á veðurfar sem Svensmark telur vera býsna mikil.

Gamli pistillinn: Hlýnun af mannavöldum - hvað á leikmaður að halda?
Þessi misseri snúast umræður um umhverfismál einkum um aukningu koldíoxíðs í andrúmsloftinu og hlýnun vegna þess. Áhyggjur af öðru sem menn gera og ógnar umhverfinu virðast hverfa í skuggann af áhyggjum af hækkandi hitastigi vegna vaxandi notkunar á kolum, olíu og jarðgasi (en við bruna þessara efna breytast kolefnissambönd sem bundin voru í jörðu að mestu í koldíoxíð og vatnsgufu). Koldíoxíð er kallað gróðurhúsalofttegund því það virkar svipað og glerið í gróðurhúsum sem hleypir sólarljósi inn en varmageislun (þ.e. geislun með mun lengri bylgjulengd) frá jarðveginum kemst ekki eins auðveldlega út í gegnum það svo hitinn safnast upp inni í gróðurhúsinu.

Hvað á leikmaður að halda um þessar áhyggjur allar saman? Á hann að hrista höfuðið og hugsa sem svo að fólk hafi alltaf haft þörf fyrir að flytja váleg tíðindi og trúa goðsögnum um yfirvofandi hörmungar, dómsdag og hrun? Harðir dómar yfir syndugum lýð og áminningar um að fólki hefnist fyrir gjálífi og munað eiga alltaf hljómgrunn. Umræða um gróðurhúsaáhrif af mannavöldum fullnægir þörf manna fyrir svona tal sérlega vel því ósköpin eru okkur öllum að kenna: Þau stafa af einhverju sem venjulegt fólk gerir oft eins og að aka bíl eða elda mat. Það er svolítið freistandi að hrista bara höfuðið, enda næsta ljóst að ein af ástæðum þess að gróðurhúsaáhrif eru vinsælla umræðuefni heldur en t.d. kjarnorkuvá (sem er þó talsvert skelfilegri en óblíðara veðurfar) er að þau koma til móts við þörf manna fyrir samviskubit og sjálfsásökun. En skýring á vinsældum sögu sker ekki úr um sannleiksgildi hennar og ekkert sem hér hefur verið sagt útilokar að um raunverulega hættu sé að ræða.

Síðan iðnbyltingin hófst hefur koldíoxíð í andrúmsloftinu aukist úr um það bil 0,28 prómill í 0,38 prómill og það eykst nokkuð hratt um þessar mundir svo með sama áframhaldi tvöfaldast það fyrir næstu aldamót. Gögn um sögu veðurfars á jörðinni sýna að samband er milli koldíoxíðmagns í loftinu og hita á jörðinni, þótt hitasveiflur verði einnig af öðrum ástæðum, einkum vegna mismikillar útgeislunar frá sólinni og reglubundinna breytinga á braut jarðar.

Frá lokum síðustu ísaldar hefur veðurfar á jörðinni verið fremur stöðugt og öfgalítið miðað við það sem oft hefur gerst á forsögulegum tímum. Jarðsagan kennir okkur að þessi stöðugleiki er ekki sjálfsagt mál og það eru möguleikar á veðurfari sem er mun óhagstæðara okkur mönnunum en það sem ríkt hefur undanfarin árþúsund. Þessi sama jarðsaga kennir okkur líka að síðustu 60 milljónir ára eða þar um bil hafa hlýskeið eins og við lifum á jafnan staðið fremur stutt (í svona 10 til 20 þúsund ár) og milli þeirra verið löng jökulskeið.

Þótt margt sé á huldu um hvað aukið koldíoxíð hefur mikil áhrif á lofthita virðist næsta ljóst að brennsla kola, olíu og jarðgass stuðlar að að öðru jöfnu að hækkun hitastigs. Spár IPCC (http://www.ipcc.ch/index.html) benda til að hækkun hita á þessari öld geti verið á bilinu 1,4 til 5,8 gráður ef ekki verður dregið úr brennslunni. Óvissan um hvað hækkun hitastigs verður mikil stafar mest af því að hitaaukning setur af stað ferli sem sum magna áhrifin og sum tempra þau og ekki er auðvelt að reikna hvað þetta gerist í miklum mæli.

Það sem helst er talið magna áhrifin er að: Þegar ísa leysir vegna hlýnunar minnkar endurvarp sólarljóss (jörðin verður einfaldlega dekkri þegar minni hluti hennar er hulinn ís og snjó og dökkur hlutur hitnar meira í sól en hvítur); Þegar sjórinn hitnar drekkur hann minna koldíoxíð í sig og þegar jarðvegur hitnar losnar meira koldíoxíð úr honum. Ef þessi áhrif verða eins mikil og svartsýnustu spár gera ráð fyrir og ekkert vegur á móti þeim mun hiti hækka ansi mikið. Það sem gæti helst vegið á móti er ef hlýnun veldur aukinni skýjahulu og skýin endurvarpa sólarljósi í þeim mæli að það geri meira en að vega móti gróðurhúsaáhrifum vatnsgufunnar (en vatnsgufa í loftinu lokar hita inni ekkert síður en koldíoxíð).

Þótt mikil óvissa sé um hvað hitnun af mannavöldum verður mikil og hvaða langtímaáhrif hún hefur benda rök til að það sé a.m.k. mögulegt að vaxandi notkun jarðefnaeldsneytis hafi slæm áhrif á veðurfar. Þetta er hætta sem er ástæða til að taka alvarlega.

Umhverfisverndarsinnar vilja að brugðist sé við þessu með því að minnka notkun á eldsneyti. Það er þó langt frá því að vera neitt einfalt mál, því jarðefnaeldsneyti gegnir lykilhlutverki í efnahag heimsins, enda er stærstur hluti af roforku sem fólk notar framleiddur með því. Þar sem hagvöxtur er ör, eins og í Kína, eykst notkun þess hratt og talið er að Kínverjar muni tvöfalda losun koldíoxíðs á fyrsta fjórðungi þessarar aldar og komast fram úr Bandaríkjamönnum. Fleiri þróunarlönd munu að líkindum stórauka orkunotkun á næstu árum enda erfitt að sjá hvernig þau geta bætt kjör þegna sinna með öðru móti.

Það er snúið mál að fá fólk til að draga úr losun koldíoxíðs. Flestir þjóna eigin skammtímahagsmunum með því að auka hana og líklega eru það langtímahagsmunir flestra að halda sínu striki en fá alla hina til að minnka eldsneytisnotkun. Það er ólíklegt að takist að fá þorra jarðarbúa til að taka langtímahagsmuni heildarinnar fram fyrir sína eigin skammtímahagsmuni. Það er líka ólíklegt að takist að draga úr losun koldíoxíðs með mótmælagöngum og pólitískum yfirlýsingum einum saman. Hér er líklega þörf á raunverulegri stjórnvisku. Ef aukning gróðurhúsalofttegunda ógnar langtímahagsmunum mannkyns eins mikið og talið er þarf að finna leiðir til að minni eldsneytisnotkun verði keppikefli sem flestra, eitthvað sem þeir hagnast sjálfir á til skammt tíma litið. Menn hljóta til dæmis að skoða hvaða kostir eru á að láta skatt af koldíoxíðlosun koma í stað annarra skatta og hvernig hægt er að umbuna þeim sem binda meira koldíoxíð í jörð eða sjó en þeir losa út í loftið.

Hæfilega efagjarn leikmaður sem fylgist með umræðunni um gróðurhúsaáhrif hlýtur að setja spurningamerki við margt sem er fullyrt, enda enginn skortur á stóryrðum um efnið. Hann hlýtur líka að gera sér grein fyrir að vísindamenn eru engan veginn sammála um langtímaáhrif af aukinni brennslu á kolum, olíu og jarðgasi þótt flestir hallist að því að hún ýti undir hlýnun. En hann hlýtur samt að taka hætturnar nógu alvarlega til þess að styðja stjórnmálamenn sem leita leiða til að draga úr líkunum á að illa fari.Lokað er fyrir ummæli.