Um hælbíta og formann Samfylkingarinnar

Ég rakst um daginn á orðtak sem var á þá leið að smámenni tali um fólk, meðalmenn tali um verk og stórmenni tali um hugmyndir. Ef til er flokkur fyrir ofan þessa þrjá er hann ef til vill skipaður þeim fáu sem hafa vit á að þegja. Um það má þó efast. Hitt eru öllu vissara að fyrir neðan smámennin eru hælbítarnir og einhvern veginn eru þeir ansi áberandi í umræðum um stjórnmál á kosningaári.

Hælbítar ræða ekki um fólk heldur glefsa eftir orðum sem hægt er að slíta úr samhengi eða rangtúlka og nota sitt litla hugmyndaflug til að leggja þau út á versta veg. Sá stjórnmálamaður sem mest hefur lent milli tannanna á þeim undanfarið er líklega Ingibjörg Sólrún. Valgerður Sverrisdóttir hefur líka fengið sinn skammt.

Fyrir nokkru voru að mínu viti ósköp eðlilegar pælingar Ingibjargar um langtímaáhrif þess að vera í stjórnaandstöðu slitnar úr samhengi og þrástagast á að hún héldi því fram að þingflokki Samfylkingarinnar væri ekki treyst. Auðvitað hefur langvarandi stjórnmarandstaða töluverð áhrif á hvað þingmenn leyfa sér að segja og þessi áhrif eru ekki öll á þann veg að skapa yfirbragð sem vekur traust. Um þetta var fyllilega eðlilegt og skynsamlegt að tala. Að slíta eina setningu úr samhengi var hins vegar ekki stórmannlegt, raunar fyrir neðan plan bæði meðalmenna og smámenna.

Annað dæmi er hvernig snúið hefur verið út úr orðum Geirs Haarde um stúlkur sem dvöldu í Byrginu. Eðlileg túlkun á ummælum hans gefur ekkert tilefni til að saka hann um eitt né neitt. En það er hægt að leggja þau út á verri veg og þá eru hælbítarnir í essinu sínu og þeir hafa ansi vond áhrif á alla umræðu um stjórnmál.

Umræðan hefur tilhneigingu til að snúast um frambjóðendur, kosti þeirra og galla. Ef marka má orðtakið er þetta smámennaplanið. Hún þarf að snúast um verk og viðfangsefni og helst þarf líka að fjalla um hugmyndir: stefnu flokkanna og framtíðarsýn. En hún kemst síður upp fyrir tröppu smámennanna ef mikill fjöldi hælbíta reynir stöðugt að toga hana enn neðar.

Ég er einn af þeim sem líst fremur illa á sumt í stefnu Samfylkingarinnar (einkum í utanríkismálum) þótt mér virðist margt af fólkinu sem er í framboði fyrir flokkinn vera ágætisfólk (og þar tel ég formanninn með). En ég sakna þess að stefnan sé rædd. Í fjölmiðlum ber meira á hælbítum sem reyna að glefsa í formanninn en stórmennum sem gagnrýna stefnu hennar.2 ummæli við “Um hælbíta og formann Samfylkingarinnar”

  1. ábs ritar:

    Björn Bjarnason hlýtur að teljast einn hælbitnasti maður landsins.

  2. Atli Harðarson ritar:

    Já ég hefði átt að nefna Björn. Ummæli hans hafa ansi oft verið slitin úr samhengi og lögð út á versta veg.