Náttúruvernd og virkjanir

Í Blaðinu í dag var viðtal við Friðrik Sófusson. Þar var talað um umhverfismál og Friðrik sagði að andstaðan gegn virkjunum hefði „afvegaleitt hina raunverulegu umhverfisumræðu sem þyrfti að fara fram í landinu um nauðsyn þess að endurheimta landgæðin og koma í veg fyrir að landið fjúki út á haf.“ Ætli þetta sé rétt?

Alþjóðleg umhverfisverndarsamtök beina spjótum sínum mjög að virkjunum og aukinni orkunotkun. Að nokkru er þetta vegna þess að flestar virkjanir losa koldíoxíð út í andrúmsloftið og menn hafa áhyggjur af áhrifum þess á veðurfar. Að nokkru er þetta vegna þess að hjá allmörgum blandast umhverfispólitík saman við andstöðu gegn markaðsbúskap, iðnvæðingu og módernisma og löngun til að hverfa aftur til eldri samfélagshátta.

Fyrrnefndu ástæðurnar eiga ekki við um virkjanir hér á landi. Þær brenna engu eldsneyti og hafa hverfandi lítil áhrif á andrúmsloftið.

Kannski er andstaða íslenskra græningja við virkjanir að einhverju leyti vegna þess að þeir fylgja línunni frá skoðanabræðrum í útlöndum og huga ekki að því að laga umhverfispólitík sína að íslenskum aðstæðum. Að nokkru leyti skýrist hún sjálfsagt af andstöðu gegn markaðsbúskap, iðnvæðingu og módernisma.

Ef umhverfisverndarsinnum er í raun meira í mun að berjast gegn kapítalisma en að vernda náttúruna er ofureðlilegt að þeir noti mestalla sína krafta til að beita sér gegn virkjunum. En ef þeir sem hafa aðallega áhuga á landvernd og jarðarbótum ættu þeir kannski að fara að ráðum Friðriks og reyna að koma í veg fyrir uppblástur og gróðureyðingu.2 ummæli við “Náttúruvernd og virkjanir”

  1. Einar ritar:

    Hmmm, hvað með óafturkræfa margföldun uppblásturs samfara myndun Hálslóns? En eru ekki margir umhverfissinnar einmitt á móti því að ríkisstjórn landsins niðurgreiði þjónustu við stórfyrirtæki og hygli þeim á kostnað almennings. Einhvern tíma hefði þetta heitið helv. kommapólitík.

  2. Atli Harðarson ritar:

    Ég býst við að þetta sé kommapólitík í augum hreintrúarfrjálshyggjumanna. En svo hrein trú er nú varla til hjá fullorðnu fólki.

    Sá flokkur sem talar mest fyrir umhverfisvernd (þ.e. VG) er ekki á móti ríkisstuddri byggðastefnu almennt og yfirleitt: Vill raunar ganga heldur lengra í henni en flestir sem mæla Reyðaráli bót.

    Ef þú ert að tala um hættu á foki af bökkum lónsins þá býst ég við að hún sé raunveruleg (þótt ég efist nú um að það eyði miklum gróðri). Þrátt fyrir þessa hættu er hægt að minnka stórlega jarðvegseyðingu á hálendinu með einföldum ráðum eins og sáningu og áburðargjöf og bæta þannig smáaukningu á einum stað með minnkun á öðrum.