Jón Baldvin og fylgi Samfylkingarinnar

Allmikið hefur verið talað um viðtal við Jón Baldvin Hannibalsson í sjónvarpsþættinum Silfur Egils. Ég varð forvitinn og fór á www.visir.is og lét þetta rúlla á tölvuskjánum. Jón Baldvin var kokhraustur. Ekki sparaði hann stóru orðin. Einhverjum fannst þetta sjálfsagt flott hjá honum. Ég er samt ekki frá því að gífuryrði af þessu tagi hafi átt sinn þátt í því að tryggja íslenskum vinstrimönnum nokkuð öruggan minnihluta á þingi.

Jón Baldvin vandaði Samfylkingunni ekki kveðjurnar og lét að því liggja að það væri klúður hjá forystusveitinni að hún hefði ekki fylgi á við Sjálfstæðisflokkinn. Samt hefur Samfylkingin talsvert meira fylgi en jafnaðarmenn höfðu þegar Jón Baldvin var formaður í flokki þeirra.

Í þingkosningum á árabilinu 1956 til 1995 hafði Alþýðuflokkurinn að meðaltali tæplega 15% fylgi. Það varð mest 22% í kosningum 1978 og minnst rúm 9% í kosningum 1974. Á sama árabili höfðu vinstriflokkar að jafnaði um 37% fylgi samtals (ef Samtök um kvennalista teljast vera vinstri flokkur). Atkvæði greidd vinstriflokkum urðu minnst um 30% árið 1967 og fóru upp í um 48% árið 1978.

Undanfarna hálfa öld hefur fylgi vinstri flokka í Alþingiskosningum rokkað milli 30% og 40% með tveim undantekningum sem eru 1978, þegar þeir fengu samtals rúm 48%, og 1983, þegar þeir fengu samtals tæp 42%.

Flokkar sem hafa svipaða stefnu og Samfylkingin (þ.e. Alþýðuflokkur, Samtök frjálslyndra vinstrimanna, Þjóðvaki og Samfylking) hafa lengst af átt um helming af vinstrafylginu eða 15% til 20% af öllum greiddum atkvæðum. Frá þessu eru tvær undantekningar sem eru kosningarnar 1999 og 2003 þegar Samfylking fékk ríflegan meirihluta allra atkvæða vinstrimanna. Á þessum árum var Samfylkingin líka blanda úr ólíkum flokkum með allstóran hóp Alþýðubandalagsmanna innanborðs. Nú er hún orðin talsvert líkari gamla Alþýðuflokknum.

Það geta varla verið nein stórtíðindi að stjórnmálastefna sem hefur í hálfa öld átt um og innan við 20% fylgi hafi rétt um 20% fylgi núna. Það bendir heldur ekki til að forysta Samfylkingarinnar sé að standa sig neitt sérstaklega illa. Það bendir í raun ekki til annars en þess að fremur lítið hafi breyst. Meirihluti Íslendinga aðhyllist svipaðar skoðanir og borgaraflokkar og miðflokkar fylgja í nágrannalöndum okkar og minnihlutinn er hallur undir vinstriflokka. Skiptingin er ekki fjarri því að vera 60-40. Í sumum öðrum löndum sem búa við svipaða menningu er hún nær 50-50 og sumar þjóðir eru seinheppnar og sitja uppi með 40-60.

Jón Baldvin breytti þessu ekki þegar hann var formaður Alþýðuflokksins. Hann breytir þessu heldur ekki með því að tala digurbarkalega í sjónavarpið. Það eina sem hann hugsanlega gæti gert með stóryrðum er að fæla örfáa frá því að kjósa Samfylkinguna. Ég græt það þurrum tárum en skil vel að fyrrum félögum hans í pólitík líki þetta ekki sérlega vel.2 ummæli við “Jón Baldvin og fylgi Samfylkingarinnar”

  1. Einar ritar:

    Ég sé að þú nefnir ekki Bandalag Jafnaðarmanna, er það reiknað inn í þessar tölur?

  2. Atli Harðarson ritar:

    Bandalag jafnaðarmanna er inni í tölunum hjá mér, með 7,3% fylgi í kosningum 1983, en ég gleymdi að nefna það. Tölurnar eru annars upp úr bók Helga Skúla Kjartanssonar, Ísland á 20. öld.

    Mér finnst Ingibjörgu Sólrúnu sýnd fremur lítil sanngirni í umræðum um stöðu Samfylkingarinnar. Er ekki nær sanni að það sé henni og samstarfsmönnum hennar að þakka að Samfylkingin er með meira fylgi en gamli Alþýðuflokkurinn var en að það sé henni að kenna að Samfylkingin hafi minna fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn?

    Það er ekkert að marka að bera fylgistölur núna saman við kosningaúrslit meðan hálft Alþýðubandalagið var enn inni í Samfylkingunni og heldur ekkert að marka að bera niðurstöður skoðanakannana nú saman við niðurstöður þegar fjöldi fólks var hundfúll út í Sjálfstæðisflokkinn út af fjölmiðlafrumvarpsbægslaganginum.