Háskólinn og smá pólitík

Ég reyni stundum að fylgjast ofurlítið með nemendum úr Fjölbrautaskóla Vesturlands eftir að þeir útskrifast. Ég hlusta að minnsta kosti eftir því þegar sagt er frá árangri þeirra. Flestum þeirra vegnar sem betur fer vel. Ég get þó ekki annað en verið hálfgramur fyrir hönd þeirra sem hefja nám við Háskóla Íslands og lenda þar í meira en 100 manna hópum í flestum kennslustundum á fyrsta ári. Mér finnst þetta vera svindl og svínarí.

Þeir sem fara í háskóla fara flestir að læra fag sem þeir hafa áhuga á umfram önnur fög. Nú loksins geta þeir sökkt sér niður í það sem þeir virkilega vilja læra. Að hrúga þeim saman í 100 til 200 manna fyrirlestrarsölum er ekki besta leiðin til að viðhalda áhuganum og hvetja þá til dáða. Góð kennsla krefst persónulegra kynna og samskipta nemenda og kennara.

Til að útskrifa góða vísinda- og fræðimenn þarf háskólinn að taka á móti ungu fólki þannig að það geti strax í byrjun náms kynnst fulltrúum fræðanna og smitast af áhuga þeirra. Það gerist varla þar sem kennarinn stendur uppi á sviði í risastórum sal í Háskólabíó og lætur glærur rúlla á tjaldi fyrir framan nemendahóp sem er svo stór að hann getur ekki einu sinni lært hvað allir heita. Ég býst við að þetta eigi sinn þátt í miklu brottfalli nemenda úr Háskóla Íslands.

Sjálfur var ég svo heppinn þegar ég gekk í háskola að vera yfirleitt í fámennum námshópum og með úrvals kennara. Á fyrsta ári í Háskóla Íslands fékk ég til dæmis að vera í þriggja manna hópi í miðaldabókmenntum sem Vésteinn Ólason kenndi. Hann var kennari sem hafði smitandi áhuga og mátti vera að því að tala við 20 ára byrjanda. Þegar ég fór svo í heimspeki á öðru ári var ég hjá kennurum sem þekktu alla nemendur sína áður en önnin var hálfnuð og þegar ég fór í framhaldsnám við Brown University tók enn betra við því prófessararnir, sem voru í fremstu rök á sínu sviði í heiminum (fólk eins og t.d. Roderick Chisholm, Ernest Sosa, Itamar Pitowski og Felicia Nimue Ackerman), unnu með okkur nemendunum og ræddu um rannsóknir sínar og skrif og lögðu sig fram um að kynnast hverjum og einum. Það eru svona samskipti sem gera háskóla að góðum háskóla.

Vonandi verða peningarnir sem menntamálaráðherra lofaði Háskóla Íslands um daginn notaðir til að minnka nemendahópa, einkum á fyrsta ári í fjölmennu deildunum. Vonandi fá þeir sem byrja þar á næstu árum jafngóða kennslu og ég sjálfur fékk á sínum tíma.

Smá pólitík: Margrét Sverrisdóttir tapaði í varaformannskjöri Frjálslynda flokksins. Að mínu viti eykur það líkurnar á að flokkurinn verði jaðarflokkur sem enginn annar vill vinna með í ríkisstjórn. Fari svo munu núverandi stjórnarandstöðuflokkar ekki mynda stjórn þó þeir nái 32 þingmönnum eða fleiri.

Ef Frjálslyndi flokkurinn verður með svona 8 þingmenn eftir næstu kosningar og stefnu í málefnum innflytjenda sem enginn annar vill láta bendla sig við þá verður líklega engin leið að mynda starfhæfa ríkisstjórn án þátttöku Sjálfstæðisflokks. Kannski má spá því nú þegar að næsta stjórn verði mynduð af Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu.

Ég vona auðvitað að Sjálfstæðisflokkurinn hafi áfram forystu í ríkisstjórn. (Þó ég bölvi honum í sand og ösku fyrir þjóðlendukommúnisma, fáránlega sóun á almannafé í reiðhallir og fleira rugl og að stilla Árna Johnsen upp í öðru sæti í Suðurkjördæmi þá er hann a.m.k. talsvert skárri en hinir.)Lokað er fyrir ummæli.