Þjóðlenduvargagangur, þingkonur í Arabíu og Sabbatæ Zevi

Ég hef stundum verið kominn á fremsta hlunn með að skrifa pólitískar predikanir á þetta blogg. Ég hef svo sem alveg nóg um að tala í þeim dúr: Ég get t.d. skammast yfir þjóðlenduvargaganginum í ríkinu sem reynir að sölsa undir sig eignalönd fólks (sorglegt að Sjálfstæðisflokkurinn skuli standa fyrir þessari vitleysu). Vonandi kæra bændur sem hafa verið sviptir þinglýstum eignum sínum ríkið fyrir rán á landi, vinna málið og fá skaðabætur. Ég get líka lýst stuðningi við þingkonurnar sem fóru til Saudi-Arabíu og klæddu sig eins og talið er nokkurn veginn við hæfi þar um slóðir. Það var vel gert að senda hóp af konum þangað og af fréttamyndum verður ekki ráðið að neitt hafi verið athugavert við klæðaburð þeirra. Það er afar hæpið að þær hefðu orðið kynsystrum sínum í Arabíu að miklu liði með því að ögra þarlendu velsæmi. En með því að koma vel og virðulega fram sýndu þær sjálfsagt einhverjum þarna suður frá að sumstaðar eru konur fullgildar í pólitík.

En alltum það. Ég ætlaði ekki að skrifa um pólitík heldur um geðhvarfasjúkling frá Smyrnu sem Trykjasoldán lét fangelsa árið 1666, sama ár og Passíusálmar Hallgríms Péturssonar voru gefnir út á bók. Sjúklingurinn hét Sabbatæ Zevi. Hann var gyðingur og hlaut hefðbundna menntun í Talmúd og öðrum gyðinglegum fræðum. Ungur að aldri las hann einnig Zohar sem er höfuðrit gyðinglegrar dulspeki.

Zohar (eða Sefer ha Zohar) var rituð undir lok 13. aldar á Spáni, en það land nefndu gyðingar Sefarad. Höfundur þessa mikla rits er Moses ben Shem Tov frá Gvadalajara. Í Zohar er safnað saman helstu kenningum kabbalista en kabbalismi er samsteypa úr gyðingdómi og dulspeki sem á að nokkru rætur í fornri heimspeki Platons og Plótínusar.

Samfélag gyðinga á Spáni átti sitt blómaskeið á miðöldum og þar varð til menning sem alla tíð síðan hefur sett svip á Vestræn samfélög. Dulspekihugmyndir þaðan kannast líklega margir við úr bókum argentínska sagnameistarans Jorge Luis Borges. Hann þekkti þessar hugmyndir trúlega af sínum heimaslóðum, því gyðingar hafa í meira en 4 aldir verið fjölmennir í hópi landnema sem flutt hafa frá gamla heiminum til þess nýja.

Velmektarárum gyðingasamfélagsins á Spáni lauk þegar Ferdinand konungur og Ísabella drottning heimiluðu rannsóknarréttinum að fara sínu fram í ríkinu árið 1478. Hófust þá ofsóknir gegn gyðingum sem ekki eiga sína líka fyrr en kemur fram undir miðja 20. öld. Eins og gerst hefur bæði fyrr og síðar þegar gyðingar hafa verið beittir harðræði og myrtir hópum saman jókst áhugi þeirra á messíasarspádómum. Í fornum ritum spámannanna fundu þeir fyrirheit um leiðtoga sem mundi frelsa þjóðina.

Árið 1666 var enn verið að brenna menn á báli suður á Spáni og í Portúgal fyrir að ákalla guð á hebresku eða halda laugardaginn heilagan. Og þegar fréttir bárust af manni austur í Miðjarðarhafsbotnum sem stundum grét vikum saman yfir syndum heimsins og var stundum svo fullur af guðmóði að hann svaf ekki heilu vikurnar heldur predikaði án afláts, sá sýnir og sagði spár þá lögðu hinir trúuðu saman tvo og tvo og fengu út að Sabbatæ Zevi væri messías sjálfur, loksins kominn.

Tengsl Sabbatæ Zevi við kabbala og menningu Sefarad gyðinga hafa sjálfsagt átt sinn þátt í því hvað sögur af honum höfðu mikil áhrif í Hollandi og víðar þar sem voru afkomendur flóttamanna sem flúið höfðu undan spánska rannsókarréttinum. Um skeið var varla um annað talað í samkunduhúsum Amsterdaam. Ríkir kaupmenn seldu eigur sínar og héldu af stað til fundar við þennan mikla leiðtoga sem sagt var að gæti lífgað við látna menn, slitið af sér hlekki Tyrkjasoldáns og gengið gegnum múrveggina í fangelsum hans.

Annað kom þó á daginn. Þegar menn soldáns hótuðu Sabbatæ Zevi bana nema hann gengi Islam á hönd setti hann upp túrban, tók sér nafnið Azziz Mehemed Effendi og lifði sem góður og geðveikur múslimi eftir það og enn lætur hinn rétti messías bíða eftir sér.Lokað er fyrir ummæli.