Dagurinn í dag - myndir úr skólanum

Klukkan er að verða ellefu og ég var að klára að fara yfir verkefni nemendanna sem ég er með í fjarkennslu og á bara eftir að senda þau til baka. Ég geri þetta venjulega á föstudagskvöldum og er stundum að þessu talsvert fram eftir.

Þetta hefur annars verið ofurvenjulegur föstudagur. Ég var með forfallasímann til klukkan 9, þá var skrifstofufundur. Eftir hann var frekar rólegt í vinnunni svo ég skrapp í heimsókn niður í tréiðnadeild og dútlaði svolítið við heimasíðu skólans (en eitt af mínum verkefnum er að halda henni við). Eftir hádegi var svo deildarstjórafundur eins og venjulega á föstudögum (það eru tveir fastir fundir hjá mér á föstudögum).

Ég tók nokkrar myndir af nemendum bæði í gær og í dag. Ein þeirra er komin inn á flickr.com. Vona að krökkunum á myndinni sé sama. Ég safna annars myndum úr skólalífinu á stafræmu formi. Ég skannaði úrval úr því sem var til í albúmum í vörslu skólans fyrir þrem árum síðan og hef eftir það fengið sendar margar stafrænar myndir bæði frá nemendum og starfsfólki.

Ef einhver sem les þetta á skemmtilegar myndir úr Fjölbrautaskóla Vesturlands þá má hann alveg senda mér eintök. Ef fólk kemur með myndir á pappír skanna ég þær á augnabliki og skila strax aftur. Það er lítið til af myndum frá fyrstu árum skólans (1977 til 1987) og sérstakur fengur að ljósmyndum frá þeim tíma þegar kennararnir voru flestir innan við fertugt.

Þetta ljósmyndasafn sem ég er að tala um er ekki neitt einkafyrirtæki. Það er auðvitað í eigu skólans og varðveitt á gagnageymslum hans. Það er mikilvægt fyrir stofnunina að varðveita gögn um eigin sögu og ég lít á það sem hluta af starfinu að halda þessum gögnum til haga.Lokað er fyrir ummæli.