Krummi - framhald

Hrafnar og mannfólk eiga margt sameiginlegt. Samfélagsgerð krumma er talsvert flókin og hann er alæta eins og við. Þótt hann geti lifað á jurtafæði eins og maðurinn þarf hann orkuríkan mat, helst spik og feitt kjöt til að lifa af vetrarkuldann hér á norðurslóðum. En hrafninn er eins og maðurinn, óvenjuleg kjötæta að því leyti að hann hefur hvorki kjaft né klær til veiða og er harla vanbúinn til að afla sér þeirrar fæðu sem hentar honum best. Jafnvel þótt krummi sé svo heppinn að finna sjálfdauða kind getur hann ekki rifið gat á belginn á henni til að komast í mörinn. Það eina sem hann ræður við eru skordýr, smákvikindi í fjörupollum, mýs og ormar. Þokkalegasti matur allt en í mestu hörkum þegar krumma er lífsnauðsyn að fá mikla orku standast þessar krásir ekki samjöfnuð við klaufdýr eða seli.

Einhvern tíma fyrir löngu stóðu forfeður okkar frammi fyrir sams konar vandamáli. Þeir þurftu eggjahvítuefni og fitu en höfðu hvorki tennur né klær til að vinna á almennilegri villibráð. Þegar dýrategund lendir í svona tilvistarkreppu, að geta ekki almennilega aflað sér matar, er tvennt til, annað hvort deyr hún út eða náttúruvalið rambar á einhver úrræði. Í okkar tilviki varð til heilabörkur með mörgum lögum af taugum og fimir fingur og þetta tvennt dugði manninum til að tálga spjót, riða net, smíða öngla og axir og fleiri tól sem komu í staðinn fyrir vígtenntur og klær. En hvað gerðu forfeður hrafnsins?

Dýrafræðingur einn í Maine í Bandaríkjunum sem heitir Bernd Heinrich hefur varið æfi sinni í rannsóknir á hröfnum og skrifað um þá lærðar bækur. Meðal þess sem Heinrich hefur fundið út er að krummi bjargar sér með samvinnu við ljón í suðurlöndum, hvítabirni á norðurhjara og úlfa og önnur dýr af hundaætt í löndum sem eru þar á milli. Þessi samvinna er beggja hagur því hrafninn á miklu auðveldara með að finna bráð en dýr sem ekki geta hafið sig frá jörðu. Þegar svangur hrafn hefur fundið sel á Grænlandi eða hjartardýr í Kanada leitar hann uppi svangan björn eða úlfa og vísar á bráðina. Hann fær svo að kroppa með þessum vinum sínum þegar þeir hafa rifið fenginn á hol.

Ég veit ekki til að neinn hafi rannsakað hegðun og samfélagshætti íslenskra hrafna en allir sem hafa alist upp í sveit vita hvernig þeir láta við hundana. Stundum er sagt að hrafninn skemmti sér við að stríða þeim en ég held að tilhneiging krumma til að eiga veiðifélag með úlfum og öðrum kvikindum af hundaætt skýri hvers vegna hann krunkar á hundinn. Ætli hann sé ekki að láta hvutta vita að hann hafi fundið kind og sé til í að vísa á hana svo þeir geti fengið sér bita saman. Það er ef til vill ekkert undarlegt að bændur sem byggja afkomu sína á kvikfjárrækt hafi ímugust á krumma. Mér skilst að hjá veiðimönnum á Grænlandi sé viðhorfið allt annað. Þeir líta á hrafninn sem vin og sögur herma að hrafnar hafi þróað svipaða samvinnu við inúíta og við úlfa og birni. Bernd Heinrich hefur kannað þessar sagnir og segir að þær séu trúlegar og komi vel heim við það sem hann hefur fundið út um samvinnu krumma við ferfætt rándýr. Sé þetta rétt má ætla að hrafninn hafi töluvert vit því mannvist á norðurslóðum er full ung til að náttúruval hafi mótað samvinnu af þessu tagi og hér er ef til vill komið að merkilegasta samkenni hrafna og mannfólks því krummi virðist gæddur skynsemi og hugsun umfram önnur dýr.Lokað er fyrir ummæli.