Krummi

Ég setti tvær myndir af krumma á flickr.com núna áðan. Þær eru báðar bútar úr stærri mynd og báðar teknar á laugardaginn síðasta þegar ég fór rúnt með myndavélina.

Það er skemmtilegt að eltast við krumma og reyna að ná af honum myndum. Hann er frekar styggur og lætur ekki koma sér að óvörum svo það veitir ekkert af að hafa langa linsu til að mynda hann.

Í þessum eltingaleikjum hef ég tekið eftir ýmsu í hegðun hrafnanna hérna sem ég hafði ekki séð áður. Ég hafði t.d. ekki séð hrafna baða sig í snjó fyrr en núna. Vissi svo sem að þeir eru kattþrifnir og þvo sér í lækjum og hafði lesið um að í þeir noti líka lausa mjöll til að skrúbba á sér fjaðrirnar - en ekki séð neinn þeirra gera það fyrr en nú.

Hrafnarnir hér í bænum virðast annars vera nokkrir tugir ungfugla sem ekki hafa parað sig en aðeins lítill hluti hrafna er svo ráðsettur að eiga maka og bú svo þótt hrafninn sé algengur fugl er varpstofninn ekkert mjög stór. Ætli það séu ekki milli tvö og þrjú þúsund laupar í landinu. Líklega er auðvelt að ganga nærri stofninum með gálauslegri veiði, og krummi er veiddur nokkuð grimmt þótt ekki sé hann talinn ætur. Ég held að margir byssumenn réttlæti þetta með því að krummi sé illfylgi og víst er að margir sveitamenn leggja fæð á hann rétt eins og minkinn og refinn. Ef til vill er hrafninn vargur og illfygli en honum er það þá vorkunn. Svangar kjötætur eiga þess engan kost að vera ímynd friðsemi og kyrrlátrar sælu í augum annarra dýra. En þótt hrafninn sé svona eins og hann er kann ég betur við hann en aðra fugla og mér finnst að hann ætti að vera þjóðartákn okkar því hann er eitt helsta einkennisdýr íslenskrar náttúru. (Meira um krumma á morgun.)Lokað er fyrir ummæli.