Próflausir áfangar í fjarnámi

Mörgu af því sem ég frétti í vinnunni má ég ekki segja frá. Þetta eru einkamál annars fólks. Ég reyni því að tala sem minnst um smáatriðin sem ég er að fást við í skólanum. Sumt sem ég verð var við á þó erindi fyrir almenningssjónir og endrum og sinnum birti ég eitthvað vinnutengt opinberlega. Til dæmis skrifaði ég grein um Samkeppni framhaldsskóla í tímaritið Þjóðmál ekki alls fyrir löngu og byggði þá m.a. á vitneskju sem ég fékk frá nemendum.

Í þessari grein benti ég á að samkeppnisumhverfi framhaldsskóla er að sumu leyti óheppilegt. Skólar eru undir of mikilli pressu að laða að sér nemendur með því að bjóða þeim upp á margar einingar með lítilli fyrirhöfn. Það má líka orða þetta svo að meðan ríkið borgar skólum í hlutfalli við fjölda eininga sem nemendur þeirra taka sé hagkvæmt fyrir skóla að gera nemendum auðvelt að taka heldur fleiri einingar en færri.

Í starfi mínu ræði ég alloft við nemendur sem kjósa að taka einstaka áfanga við aðra skóla en þann sem þeir ganga í dags daglega. Sumir þessara nemenda segja blákalt að þeir velji að taka staka áfanga t.d. í fjarnámi eða sumarskóla á þessum eða hinum staðnum vegna þess að þeir séu léttari þar.

Nú er svosem enginn einn mælikvarði á þyngd náms og því erfitt að meta svona fullyrðingar. Ég hef þó orðið svolítið hugsi yfir því sem tveir nemendur hafa nýlega sagt mér. Þeir kusu báðir að taka lokaáfanga í bóklegri grein í fjarnámi við annan skóla og báðir tilgreindu sömu ástæðu, sem er að skólinn sem þeir völdu bjóði þennan áfanga í fjarnámi án lokaprófs. Ég hef ekki kannað hvort nemendurnir sögðu mér satt um þetta en ég hef heldur enga ástæðu til að rengja þá og þykir undarlegt ef þeir hafa ekki greint rétt frá þessu.

Nemendurnir taka umræddan áfanga ekki í sama skóla svo sú tilhögun að gefa aðeins einkunn fyrir verkefni sem öll berast í tölvupósti virðist vera við lýði á fleiri en einum stað. Annar nemandinn sagði mér að hann mundi örugglega ná áfanganum því hann fengi aðstoð við verkefnavinnuna. Ég spurði hinn hvernig kennarinn gæti verið viss um að hann ynni verkefnin sjálfur en léti ekki aðra gera það fyrir sig. Nemandinn áleit að kennarinn gæti ekki vitað það. (Vonandi skjátlast nemandanum um þetta. Ef til vill hefur kennarinn samband við hann t.d. í síma eða hefur einhverjar leiðir til að komast að því ef nemandinn reynir að hafa rangt við og skila verkefnum sem aðrir hafa unnið þó ég sjái ekki í hendi mér hverjar þær leiðir geta verið.)

Nú er ég kannski farinn að blaðra meiru en ég má. En ég er ekki viss um að það sé heldur rétt að þegja yfir þessu svo ég læt það vaða. Ég vona samt að lesendur skilji þetta ekki sem neinn áfellisdóm yfir fjarnámi og sumarskólum svona almennt og yfirleitt. Þar er vafalaust margt vel gert og til sóma.4 ummæli við “Próflausir áfangar í fjarnámi”

 1. ek ritar:

  ég held þú hafir sent mér beiðni um að fá nota mynd frá mér
  “Myndin sem um ræðir er grjót sem sett var á vefinn 16.
  júlí sl.”
  svarið er já.
  kveðja ek

 2. Atli Harðarson ritar:

  Bestu þakkir ek.

 3. Þorvaldur Sigurðsson ritar:

  Prófleysi í fjarnámsáfanga er hrein fjarstæða. Þessar andskotans kornflekspakkaeiningar eru móðgun bæði við faglegan metnað þeirra kennara sem leggja sál sína í að reyna að koma nemendunum til manns og sömuleiðis þær stofnanir sem stefna að heiðarlegum rekstri þar sem þeir ná prófum sem það eiga skilið og koma hinum í skilning um að önnur vinnubrögð eru skynsamlegri þegar til lengdar lætur. En mannskepnan reynir auðvitað að fá sem mest fyrir sem minnst og alveg óvíst að menn reyni að hámarka hagnaðinn þegar til lengri tíma er litið og rennir þetta ekki litlum stoðum undir þá skoðun mína, og ýmissa annarra, að blind trú á ágæti markaðarins sem allsherjar tækis til að framkalla sem best mannlíf fyrir sem flesta.

 4. Atli ritar:

  Það skyldi þó ekki vera að trú manna á kosti samkeppni hafi slegið þá blindu í þessu efni? Þótt samkeppni fyrirtækja sé oftast til góðs er ekki þar með sagt að hún sé það við allar aðstæður og alveg óháð því um hvað er keppt og eftir hvaða reglum.