Dagurinn í dag

Vinnudagurinn byrjaði klukkan 8 að vanda. Ég var með forfallasímann til 9 og tók á móti tilkynningum um veikindi nemenda. Svo var þetta venjulega at í vinnunni. Á milli þess sem ég svarði í símann og sinnti erindum fólks sem kom til mín á skrifstofuna setti ég upp útreikninga á nýtingu á kennslu í Excel og lagfærði skráningarkerfi námsráðgjafa í Access. Hvort tveggja svona tækni- og reiknivinna sem mér þykir heldur þægileg. Ég er meira að segja farinn að kunna vel við 2007 útgáfuna af Office sem ég setti upp á fimmtudaginn (þótt notendaskilin séu gerólík eldri útgáfum sem ég var orðinn vanur).

Fyrir þá sem ekki vita hvað útreikningar á nýtingu á kennslu eru get ég þess að það er samatekt um hvort kennsla í hverri deild skólans kostar í raun meira eða minna en ríkið borgar fyrir hana. Ef margar deildir kosta meira en skólinn fær verður halli á rekstrinum og ein helsta skylda stjórnenda í opinberum rekstri er að halda sig innan fjárlaga.

Þessi vinna var rofin í smástund af samstarfsnefndarfundi (en samstarfsnefnd semur um kjör kennara við skólann). Fór svo heim í mat um hálfeitt og aftur í vinnuna rétt fyrir eitt og kom skráningarkerfinu í lag um fjögur. Rauk þá til Reykjavíkur þar sem ég hafði mælt mér mót við Vífil í Kringlunni klukkan 5. Hann fór í bæinn snemma til að fara í starfskynningu hjá Sýrlandi (sem m.a. talsetur myndir fyrir sjónvarp). Vífill var þetta ekki litla ánægður með að hafa fengið að tala inn á Disney mynd sem verður sýnd í morgunsjónvarpi fyrir börn. Erindið í Kringluna var annars að kaupa á hann úlpu. Sú gamla var orðin ansi lítill enda „krakkinn“ að ná mér í hæð.

Heimsóttum Mána í íbúðina sem hann leigir í Litla Skerjafirði ásamt tveim útlendum unglingum. Það var tími til kominn að sjá höllina. Hún var fín og má víst að nokkru þakka það að annar meðleigjandinn sem er sænsk stúlka hafði verið allan daginn að þrífa allt hátt og lágt. Við fórum svo þrír saman út að borða kínamat og í bíó. Sáum Kalda slóð í Regnboganum og höfðum gaman af. Klukkan er 22:55 og ég var að koma heim.

Hef ekki áður skrifað dagbókarfærslu hér um hvernig dagurinn líður hjá sjálfum mér enda býst ég ekki við að mörgum þyki það skipta máli. En kannski vill einhver vita hvað ég geri á svona venjulegum mánudegi. Hver veit.Lokað er fyrir ummæli.