Kettir heilags Nikulásar eftir Giorgos Seferis

9. október 2017

Giorgos Seferis
Kettir heilags Nikulásar

Allt um það syngur mér innst í barmi
einráður grunur, án lýrustrengs,
dapran harmaslag hefninornar,
horfinn líknandi von.
(Agamemnon, 990 o. áf. )

„Mér sýnist að þetta sé skaginn þar sem kettirnir voru …“ sagði kafteinninn við mig
og benti á lága strandlengju úti í mistrinu
það var jóladagur og enginn á ferli við sjóinn,
„… og þarna lengra í vestri fæddist Afródída í öldum hafsins;
staðurinn er kallaður Grikkjaklettur.
Hart í bak!“
Hún hafði augun hennar Salóme læðan sem ég missti í fyrra
og Ramazan hvernig hann starði á dauðann án þess að hvika,
heila daga í snjónum í Anatólíu
í frosti og sól
heila daga án þess að hvika aringuðinn smái.
Ferðalangur, ekki staðnæmast.
„Hart í bak“ muldraði stýrimaðurinn.

… vinur minn sem hefur ekki lengur fast skiprúm
gæti hætt þessu flakki
haldið sig inni í litlu húsi með myndum
og leitað að gluggum bak við rammana.
Skipsklukkan sló
eins og hent væri pening úr ríki sem leið undir lok
og minnti á ölmusur horfinna tíma.

„Undarlegt“, tók kafteinninn aftur til máls.
„Þessi klukka – kannski vegna þess hvaða dagur er í dag –
hún minnir mig á aðra, sem var í klaustrinu.
Það var munkur sem sagði mér frá henni
hálfgalinn, draumóramaður.

Þegar þurrkarnir miklu voru,
– fjörtíu ár og ekki dropi úr lofti –
lagðist af byggð hér á eynni;
fólkið dó og jörðin ól snáka.
Á þessum skaga voru þeir milljónum saman,
digrir eins og mannsfætur
og eitraðir.
Nikulásarklaustrið var þá í umsjá
munka frá sankti Basil
og þeir gátu hvorki erjað ræktarlöndin
né haldið hjörðum til beitar;
kisurnar sem þeir fóðruðu urðu þeim til bjargar.
Í hvert sinn sem morgunn reis sló klukkan
og liðið hélt til orrustu.
Þær börðust allan daginn þar til sú stund kom
að hún kallaði til kvöldverðar.
Eftir mat sló klukkan aftur
og þær gengu út og börðust næturlangt.
Það var sjón að sjá þær, menn létu þess getið,
sumar haltar, sumar blindar,
vantaði trýni, vantaði eyra, feldurinn tættur.
Fjögur klukkuslög á dag og þannig leið tíminn,
mánuðir, ár.
Ævinlega meiddar og sárar en fullar af hamslausri þrjósku
útrýmdu þær snákunum og að lokum
hurfu þær sjálfar; þoldu ekki svo mikið eitur.
Eins og sokkið skip
sem skilur ekki eftir nein ummerki á sjónum
hvorki mjálm né hljóm í klukku.
Tökum strikið!
Hvað gátu þær gert þessir ræflar
sem börðust og drukku daga og nætur
eitrað blóðið úr skriðkvikindunum.
Árhundruð af eitri; kynslóðir af eitri.“
„Tökum strikið“ endurtók stýrimaður og lét sér fátt um finnast.

Miðvikudagur, 5. febrúar 1969

Sagan um kettina í Nikulásarklaustrinu á Kýpur er til í ritum frá 15. og 16. öld. Um hana má t.d. lesa í greininni Cats, Snakes and Poetry: A Study of Seferis‘ “The Cats of Saint Nicholas” eftir Katerina Krikos-Davis sem birtist í Journal of Modern Greek Studies, 2. tbl., 2. árg. í október 1984. Í þeirri grein er rökstutt að ljóðið tengist andófi skáldsins gegn herforingjastjórninni sem ríkti á Grikklandi frá 1967 til 1974. Það birtist fyrst í ritinu Δεκαοχτώ κείμενα (Átján textar), sem svo hét því herforingjastjórnin krafðist þess að heiti bóka lýsti innihaldi þeirra. Skáldin sem birtu efni í þessu riti gáfu henni langt nef með því að láta bók með 18 textum heita þetta.

Tilvitnunin ofan við ljóðið er úr leikritinu Agamemnon eftir Æskílos. Ég nota þýðingu Helga Hálfdanarsonar.

Í línum 7 til 12 minnist Seferis katta sem hann átti tveim áratugum áður en hann orti þetta ljóð, högnans Ramazan sem dó í Ankara í Tyrklandi í október 1949 og læðunnar Túti sem lést ári fyrr. Seferis átti heimili í Ankara meðan hann var sendiherra Grikklands í Tyrklandi. (Um þetta má lesa á bls. 283 í ævisögu skáldsins, George Seferis: Waiting for an Angel eftir Roderick Beaton, útg. Yale University Press, 2003). Tólfta línan vísar í eftirmæli sem Seferis orti þegar læðan Túti dó.

Hægt er að finna ljóðið á frummálinu allvíða á vefnum, t.d. á síðunni http://users.uoa.gr/~nektar/arts/tributes/george_seferis/oi_gates_t_ai_nikola.htm

Ljóð eftir Elena Penga

9. október 2017

Elena Penga (Έλενα Πέγκα) er fædd í Þessalóníku árið 1964. Ljóðið Bleik martröð (Ροζ εφιαλτικό) birtist fyrst í ljóðabók hennar Aðkreppt belti og önnur skinn (Σφιχτές ζώνες και άλλα δέρματα) sem kom út árið 2012. Ég þýddi það eftir textanum í ljóðasafninu Austerity Measures: The New Greek Poetry (https://www.amazon.com/gp/product/1681371146).

Bleik martröð

að er rigning. Hérna. Líka þarna. Þar sem þú syngur. Rigningin fellur af krafti. Ég á nátt-stað í húsi mínu í djúpum hægindastól. Hann getur snúist. Ég læt stólinn fara í hringi og ég hlusta á rigninguna. Þú syngur. Rigningin heyrist. Ég hlusta á hana. Rigninguna. Önnur mannvera kemur með nýjan bleikan lampaskerm. Slekkur, skrúfar peruna úr, tekur svarta af, leggur þann bleika á, kveikir aftur. Við sitjum í bleikri birtu og ræðum það sem lagt er á. Það sem lagt er á ljósin. Ég opna út á svalir. Þú syngur. En rigningin hefur kraftmeiri hljóð. Hún kemur inn í húsið. Dynur á því sem lagt er á ljósin. Fellir þau um koll. Skellur á veruleikanum. Árum saman hafa kirsuberjatrén í garði nágrannans ekki borið ávöxt. Það koma fjórir karlar með lurka. Þeir koma inn í garð nágrannans með rigningunni. Þeir koma til að aga trén og tyfta og klippa þau niður ef þau blómstra ekki. Ég horfi á karlana lemja trén. Ég horfi á rigninguna lemja karlana.

Það má fylgja sögu að ég gat ekki þýtt þetta ljóð mjög nákvæmlega, því það sem mannveran kom með er „καπέλο για το φωτιστικό“ sem er hattur (skermur) fyrir ljósið eða lampann. En „καπέλο“ er líka viðbótargjald (t.d. ólöglegar álögur). Það er því ekki hægt að þýða „μιλάμε για καπέλα“ með „við tölum um hatta“. Ég fer í kringum þetta og segi „ræðum það sem lagt er á“.

Ljóð eftir Þomas Tsalapatis

10. september 2017

Askjan

Ég er með litla öskju og ofan í henni er sífellt verið að taka einhvern af lífi.

Hún er dálítið stærri en skókassi. Dálítið fáfengilegri en vindlakassi. Ég veit ekki hver, ég veit ekki hvern, en einhver er að aflífa einhvern. Það heyrist ekkert (nema í þau skipti sem það er auðheyrilegt). Ég set hana þar sem ég geymi bækurnar, læt hana upp á borð þegar ég vil verja tímanum til að horfa á hana, fjarri glugganum svo hún upplitist ekki í sólinni, undir rúmið þegar ég vil vera óþekkur. Innan í henni er verið að aflífa einhvern, líka þegar er gleðskapur í húsinu, meira að segja á sunnudögum, jafnvel þó það sé rigning.

Þegar ég fann öskjuna – ég ætla hvorki að segja hvernig né hvenær það gerðist – fór ég með hana heim og var harla ánægður. Á þeirri stundu bjóst ég við að heyra sjávarnið. En það sem gerist innan í henni er slátrun.

Mér fór að verða illt af þessu ónæði, af vitneskjunni um hvað gekk á innan í öskjunni. Nærvera hennar gerði mig veikan. Ég varð að grípa til einhverra aðgerða til að losa mig úr þessu, róa mig, fara í sturtu. Ákvarðanir voru óhjákvæmilegar.

Svo, ég sendi hana í pósti til vinar sem ég á til þess eins að gefa honum gjafir. Ég vafði sakleysislegum og marglitum pappír um öskjuna og batt um hana sakleysislegan og marglitan borða. Innan um bréfin í kassanum er semsagt askja og innan í henni er verið að taka einhvern af lífi. Hún bíður í póstkassanum eftir að komast í hendur vinar míns. Ég held vináttunni áfram til þess eins að gefa gjafir.

Þomas Tsalapatis (Θωμάς Τσαλαπάτης) fæddist í Aþenu árið 1984. Þetta ljóð, sem heitir á frummálinu Το κουτί kom út í bókinni Dagrenningin er sláturtíð herra Krak (Το ξημέρωμα είναι σφαγή κύριε Κρακ) sem kom út hjá forlaginu Εκάτη í Aþenu árið 2013. Ég þýddi það eftir textanum í ljóðasafninu Austerity Measures: The New Greek Poetry (https://www.amazon.com/gp/product/1681371146).
Þomas Tsalapatis birtir talsvert af verkum sínum á bloggsíðunni http://tsalapatis.blogspot.com/.

Ljóð eftir Yannis Moundelas

28. ágúst 2017

Fíll í lausu lofti

Það var fíll sem ákvað einn daginn að sér hentaði ekki að vera fíll og það væri tími til kominn að fljúga og verða fiðrildi. Vitið þið hvers vegna ekkert varð af þessu hjá honum? Það var vegna þess að hann kærði sig ekki um neitt nema hugmynd sína …
Vildi ekki vera áberandi
Vildi ekki sigrast á þyngdaraflinu
Vildi ekki svífa meðal blómanna

Vildi bara einfaldlega verða fiðrildi
og af því varð aldrei …
Þyngdin hélt honum niðri … hann var bara þar
hékk og mændi á hina fílana sem urðu fiðrildi og á tvo hvali sem breyttust í páfugla …
Var enn fíll þegar ellin færðist yfir því hugmynd hans var aldrei neitt nema hugmynd
án birtu
án vængja
sem enginn nema dauðinn gefur honum úr þessu.

Þetta ljóð eftir Yannis Moundelas (Γιάννης Μουνδέλας) er í ljóðasafninu Austerity Measures: The New Greek Poetry (https://www.amazon.com/gp/product/1681371146). Það liggur líka frammi á bloggsíðunni http://ykmt3.blogspot.is/2006/05/.

Ljóð eftir Ðimosþenis Papamarkos

18. ágúst 2017

Úr Villudómi

Þung voru sporin, þreyttur var Dauðinn, þjakandi byrðar,
skrælnaðir gómar, klárinn var líka kvalinn af þorsta,
hesturinn blakki. Áðu um stund hjá Einbúalindum.
Af reiðverum jálksins reipi þá tekur, hönk, það er undið,
svart eins og hjartað í ferðalang þeim sem frá skal nú greina,
tvinnað og þrinnað úr ekkjunnar hári, harmanda lokkum,
svo endist í sól og líka í regni og rýrni ekki af tárum,
að þrengt geti fjötur, fast geti slegið, og ef að heyrist
kjökur það bíti, eitruðum naddi, nöðrunnar gini.
Ungmenni bindur við hávaxna stofna, stúlkurnar reyrir
við kræklótta furu, kornabörn njörvar á þyrnótta runna.
Snýr sér að Faxa, yrðir á blakk sinn með aktygin skreyttu:
– Ég geng nið‘rað Lindum, fylli á belginn, færi þér sopa
úrvinda báðir erum og þurfum góminn að væta.
En langt er í vatnið, ógreiðfært klungur, klettótt er landið,
einstigið mjóa ætla ég niður, upp til að sækja
vatn og þú bíður, vaktar þá dauðu, lætur þá þegja,
annars er hætt við að ýlfrið og kveinin styggi burt lækinn
hann renni til baka, hræðist og hverfi ofan í grjótið.
– Farðu og drekktu og fylltu á belginn og færðu mér sopa,
þrælanna skal ég gæta á meðan, óttastu ekki.
Með sverðið við belti, bogann um öxl og belginn úr leðri
smokrar sér inn í þéttvaxinn gróður, grýtt er þar undir,
gengur þá slóðann, götuna tæpu, niður að Lindum.
Opnaðist gjáin, hyldjúp sem hafið, svört eins og kráka.
Bregður þeim gamla, á brúninni hikar, nemur þar staðar.
Dauðann þá sundlar, áfram þó heldur, illur er þorstinn
og gjálfrandi vatnið freistar svo ekk‘ er um annað að ræða.
Konungum brugðið löppin sú hefur sem leitar og fálmar
í bjargfastar nafir, brúnir og syllur að feta sig niður.
Ei voru skrefin mörg á hans göngu, tæplega tíu,
áður en heyrðust ofan í djúpi samræður manna
áþekkar bæði uglunnar væli og fashana kurri.
Heyrandi þetta, hóar í Faxa, kallar og mælir:
– Ég sagð‘ að þú ættir að annast þá dauðu og halda í skefjum
svo fæli þeir ekki fljótið og hreki ofan í jörðu,
samt lætur þú náina nöldra og væla með kjaftæði og skvaldur.
Hesturinn blakki hneggjandi kvað hér annað á seyði:
– Sof‘ eins og ungbörn allir þeir dauðu, bæra ekki á sér.
Ef harmljóð þú nemur, kvein eða kjökur, líttu þá eftir
hvort mælanda finnur, í gilinu djúpa, með sorgir í sefa.

Villudómar (παραλογές) eru flokkur alþýðlegs kveðskapar hjá Grikkjum. Slíkar þulur eru oftast alllangar frásagnir byggðar á efni úr þjóðsögum eða gosögnum. Þær eru yfirleitt fjarstæðukenndar með einhverjum hætti og frásögnin utan við venjulegan veruleika (sjá t.d. http://ebooks.edu.gr/modules/ebook/show.php/DSGL-A111/683/4523,20488/)

Ljóð þetta heitir á frummálinu Από την Παραλογή. Það birtist fyrst í bókinni Γκιακ (Giak) sem kom út árið 2014. Sú bók hlaut bókmenntaverðlaun Akademíunnar í Aþenu árið 2015.

Höfundurinn Δημοσθένης Παπαμάρκος (Ðimosþenis Papamarkos) er fæddur árið 1983 í Μαλεσίνα (Malesina) í Grikklandi.

Ég þýddi ljóðið út grísku með hliðsjón af enskri þýðingu í Austerity Measures: The New Greek Poetry (Karen van Dyck, ritstj., New York Review Books, 2016).

Bragarháttur frumtextans er dæmigerður grískur þjóðkvæðaháttur með fimmtán atkvæða línum. Hrynjandin í þýðingunni er önnur en í frumtextanum og ég vík frá reglunni um fimmtán atkvæði þar sem ég leyfi mér að skjóta áherslulausum smáorðum framan við bragliði eins og tíðkast í íslenskri vísnagerð.

Í frumtextanum heitir ferðalangurinn Hgaros (Χάρος) en hann er persónugervingur dauðans í grískri þjóðtrú. Til forna hét hann Χάρων og ferjaði hina dauðu yfir heljarfljótið. Á íslensku er hann kallaður Karon.

Kreppuskáldskapur Grikkja

13. ágúst 2017

Kreppan í Grikklandi hefur staðið ansi lengi og hún sverfur að. Æ meir. Hátt í helmingur barna í landinu lifir undir fátæktarmörkum. Atvinnuleysi er meira en það var í Bandaríkjunum í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Það hefur að vísu minnkað úr um 23% í um 22% undanfarið ár. Ekki veit ég hvort það er fremur vegna þess að ástandið sé eitthvað að skána, eða vegna þess hve margir hafa flutt úr landi.

Þessi kreppa hefur alið af sér þjáningar og vonleysi og það er nánast virðingarleysi við fólk að tala um hana með hugtökum úr hagfræði og pælingum um peningakerfi heimsins. Samt reyni ég kannski að segja eitthvað um þau efni næstu daga eftir því sem mín takmarkaða þekking leyfir. En ég ætla að byrja á því eina góða sem ég veit til að hafi hlotist af þrengingum Grikkja. Þær hafa alið af sér merkilegan skáldskap. (Það gerði kreppan mikla líka víða um lönd, ekki síst í Bandaríkjunum þar sem Faulkner, Caldwell og Steinbeck skrifuðu magnaðar sögur.)

Ég las fyrir stuttu enska þýðingu á smásögum eftir Christos Ikonomou (Χρήστος Οικονόμου). Bókin (sem heitir Κάτι θα γίνει, θα δεις) kom út á grísku árið 2010. Enska þýðingin heitir Something Will Happen, You‘ll See. Þegar sögurnar í henni voru samdar var kreppan byrjuð, en ástandið ekki orðið neitt eins og nú. Þarna segir frá fátæku fólki sem veit ekki hvort það fær laun um næstu mánaðamót, dreymir um súkkulaði, tekur lögin í sínar hendur, þambar brennivín eða situr næturlangt fyrir dyrum úti og talar við köttinn sinn.

Ikonomou skrifar sterkar og áleitnar myndir af lífi fólks og bágindum. En hann hefur engin hrein og klár svör – gefur samt í skyn að það sé einhver skýring á ástandinu, þó það virðist óskiljanleg. Í einni sögunni segir hann t.d. að „þótt það sé ef til vill ógnvekjandi að lifa við óreiðu þá valdi það tvöfalt meiri ugg að vita, að þetta sé ekki óreiða, heldur regla og lögmál sem þú munir aldrei læra – getir ekki lært – sama hvað þú reynir.“

Það sem ég hef lesið af kreppuskáldskap Grikkja er annars mest ljóð. Mörg af þeim eru afsprengi nýlegra hreyfinga bókmenntum heimsins. Sum falla inn í hefð sem frumkvöðlar í þarlendum nútímaskáldskap mótuðu á fjórða áratugnum. Sum eru undir hefðbundnum bragarháttum.

Eitt af því sem mér sýnist einkenna þennan skáldskap er óvissa um hvað er að gerast: Eru bágindin afleiðing af einhverju sem við höfum gert eða erum við leiksoppar sem engu ráðum um eigin örlög? Er „hrunið“ efnahagslegt, eða var það sem hrundi kannski frekar skýjaborg og draumórar um að basl og strit heyrðu sögunni til – landið væri hluti af sameinaðri Evrópu þar sem velferð alþýðu væri trygg og örugg?

Ljóðin sem ég hef lesið eru, eins og sögur Ikonomou, áleitin – en lítið um lausnir. Ég held að stór hluti af kreppuskáldskapnum fyrir um 80 árum hafi verið skrifaður af talsvert kokhraustari vissu um hvað væri vitlaust við hagkerfi heimsins og hvernig ætti að kippa hlutunum í lag. En þessi grísku skáld eru líklega of menntuð til að nota slagorð og klisjur. Hvort menntun þeirra elur bara af sér upplýst úrræðaleysi eða nýja von veit ég ekki – frekar en aðrir. En þeir sem vilja magnaðan skáldskap hafa af nógu að taka.

Talsvert af ljóðagerð Grikkja síðustu ár fæst nú í enskum þýðingum t.d. í Futures: Poetry of the Greek Crisis og Austerity Measures: The New Greek Poetry. Í síðartöldu bókinni eru ljóðin líka á frummálinu. Mikið af nýlegum grískum skáldskap er líka aðgengilegt á vefsíðum eins og t.d. www.poeticanet.gr.

Hér eru krækjur í upplýsingar um bækurnar þrjár sem ég nefndi:
www.amazon.com/gp/product/B011G4DPG4
,
www.amazon.com/gp/product/1908058242/
,
www.amazon.com/gp/product/1681371146.

Ljóð eftir William Blake

13. ágúst 2017

Tígrisdýrið

Tígur þú sem bálið berð
bjart, um næturskóga ferð;
Hver ódauðlegra upp þig dró,
svo uggvænlega mynd þér bjó?

Hvar á heimsins hinstu slóð
heitust lýsti augnaglóð?
Á hvaða vonarvængjum sveif
völundur sem logann hreif?

Hvaða öxl með ógnarmátt
inn í þig svo grimmt og flátt
með heljarafli hjartað sló
og harðar sinar um það dró?

Hvar ég inni er eldurinn,
afl og smiðja er heila þinn
á hörðum steðja hamra má
í hugann berja slíka vá.

Mun hann er lambi lífið gaf,
þá lýstu stjörnur himnum af
sem lítil tár á lágan stig,
líka hafa skapað þig?

Tígur þú sem bálið berð
bjart, um næturskóga ferð;
Hvaða hönd af dirfsku dró
og dýri slíka ásýnd bjó?

Veislan hjá Gvendi Edwin Arlington Robinson

17. apríl 2016

Edwin Arlington Robinson (1869–1935) fæddist og ólst upp í Maine í Norðaustuhorni Bandaríkjanna. Hann var með vinsældum og virtustu ljóðskáldum þar í landi í byrjun síðustu aldar. Sum eftirminnilegustu kvæði hans fjalla um auðnuleysingja og óskabörn ógæfunnar sem sumir tengja við heimabæ Robinsons, Gardiner í Maine. Ljóðið sem hér fer á eftir er eitt af þeim þekktustu. Það birtist í bókinni Avon’s Harvest sem út kom 1921.

Veislan hjá Gvendi

Seint að kvöldi Gvendur gamli einn
gekk um slóðann þar sem var hans leið
heim úr kaupstað yfir lágan ás.
Eyðilegt var kotið sem að beið,
og var hans eina athvarf hér á jörð.
Hann áði, „nægur tími“ sagði hann „já“,
þó heyrði engin önnur sála til
enda hvergi nokkurn mann að sjá.

Svo hélt hann áfram: „Gvendur gamli minn
nú gerist tunglið fullt og haustar að
en við tveir höfum átt hér fundi fyrr
og fuglar hópast rétt sem áður kvað
skáldið og við skálum fyrir þeim.“
Mót skini mánans lyftust hendur tvær
með könnu af öli sem hann hafði sótt
og sagði: „Bestu þakkir vinur kær.“

Hann fór í bæinn bara til þess eins
að bera þaðan öl um langan veg.
Á miðri götu minnti hann helst á draug
og mörgum þætti ferð hans undarleg.
En Gvendur heyrði úr bænum eins og ym,
því eitt sinn fann hann jafnan vini þar,
af röddum fólks sem forðum yrti á hann
en farið burtu, dautt og horfið var.

Þá, eins og legði blíðust móðir barn
sem blundaði í hvílu og gætti að
það vaknaði ekki, ofurhægt með gát
inn á milli þúfna á góðan stað
lét hann könnu svo hún ylti ei,
því allt er fallvalt gengi heims og manns.
Og er hann hafði stigið fáein fet
fór í gang að nýju samtal hans.

„Herra minn, ég held nú svei mér þá
við höfum ekki um skeið átt slíkan fund.
Margt er breytt hjá báðum sýnist mér
og býsna vel við hæfi að litla stund
við setjumst hérna saman, þú og ég.“
Síðan bakkar hálfhring, þykir mál
að lyfta könnu og ansa sjálfum sér
og segja: „Kæri vinur þína skál.“

„Soldinn dreitil, Gvendur, gleymast ei
hin gömlu kynni, svona þetta er nóg,
römm er taug sem rekka dregur heim.“
Röddin skalf og gamla hjartað sló
og yfir gráa einsemd þessa nótt
eigin rómi lyfti hátt í söng.
Tunglið fulla heyrði eitt þann óm
sem undir tóku hæðardrögin löng.

„Hin gömlu kynni.“ Svo varð röddin rám
og raunalega lyfti hann sínum drykk.
Aftur stóð hann aleinn. Niðrí byggð
var allt með heldur framandlegum skikk
svo héðan af hann vísast yrði vart
velkominn í bæinn líkt og fyrr.
Eflaust skelltu allir þar í lás
þótt opnað hefðu vinir forðum dyr.

Halda áfram að lesa færsluna »

Ljóðið Cortège eftir Edwin Arlington Robinson

17. apríl 2016

Sagan segir að Robinson (1869–1935) hafi ort þetta 1890 í heldur úfnu skapi. Hann hafði þá um skeið verið skotinn í Emmu Löehen Shepherd en mátti una því að eldri bróðir hans fengi hennar. Þau hjónakornin fóru frá Maine til nýrra heimkynna í Missouri með lestinni Cortège, en það nafn getur líka merkt röð, skrúðgöngu eða líkfylgd.

Cortège

Klukkan fjögur fær í dag,
fimmtán hundruð mílna veg,
ólmast lagið aldrei svo
endi slögin hrikaleg.

Klukkan fjögur fær í dag,
falið jörðin tveggja ná,
best þau fari og fari strax
í fjarlægð bæði grafa má.

Hefð‘ún dvalið hálfu meir
í heimi væri lítt um sel,
klukkan fjögur fær í dag,
ferðin byrjað gott og vel.

Klukkan fjögur fær í dag,
fólgið ástin þeirra leg
sem að gröf nú fetar fljótt
fimmtán hundruð mílna veg.

Klukkan fjögur fær í dag,
fylgt þau geta tónum seint,
mitt ólma lag í orða stað
allt það tjáð sem verður meint.

Best það gerist bara strax,
byrjað ferðin endanleg
klukkan fjögur fær í dag,
fimmtán hundruð mílna veg.

Halda áfram að lesa færsluna »

Ljóð eftir Kiki Dimoula

8. apríl 2016

Kiki Dimoula (Κική Δημουλά) fæddist í Aþenu árið 1931 og býr þar enn eftir því sem ég best veit. Eftirfarandi ljóð er úr bók hennar Grasflöt í gróðurhúsi (Χλόη θερμοκηπίου) sem út kom árið 2005. Það er fyrsta ljóðið í bókinni og ber yfirskriftina Kennslufræðileg efni (Διδακτική Ύλη).

Tími
ég afhendi þér ritgerðina mína
sem er aðallega um þig
enda varst það þú sem færðir hingað
það sem ég er núna.

Mér var fátæktin í blóð borin og tekjurnar
dugðu ekki til að senda mig utan
eftir æðra menntunarleysi. Var bara hér
í leiguhúsnæði í átthagafræði
með lágt til lofts.

Ég var hagsýn
og komst áfram án kennara
og var svona almennt og yfirleitt án
sem er aðferð til að öðlast breiðari menntun.

Frá því sem ég gekk í gegnum verður ekki sagt, engin leið að komast inn í erfiða kaflann
sem heitir „án þýðingar“.
Allt sem var fyrir mér
var án fyrir öðrum.
Þótt ég væri iðin við námið
og full af undrun fékk ég samt bara núll.
Ég bætti einkunnina með því að undrast á ný
án þess að koma orðum að neinu sem er aðferðin þín
tími
svo þú færðir breytingar
samtímis því sem eyddist með öllu
það milda form
sem hlutirnir höfðu
áður en þeir voru lærðir.

Og jafnvel nú
þegar ég eldist með þeirri aðferð að vera án
og skrepp saman og verð rugluð
undrast ég hvað ánin sjálf hafa breyst
þau voru ekki eins oft

hvað dauðinn hefur breyst
það var ekki eins oft

sem hún var svona andheit að minna mig á hann, ástin.

Halda áfram að lesa færsluna »