Kettir heilags Nikulásar eftir Giorgos Seferis
9. október 2017Giorgos Seferis
Kettir heilags NikulásarAllt um það syngur mér innst í barmi
einráður grunur, án lýrustrengs,
dapran harmaslag hefninornar,
horfinn líknandi von.
(Agamemnon, 990 o. áf. )
„Mér sýnist að þetta sé skaginn þar sem kettirnir voru …“ sagði kafteinninn við mig
og benti á lága strandlengju úti í mistrinu
það var jóladagur og enginn á ferli við sjóinn,
„… og þarna lengra í vestri fæddist Afródída í öldum hafsins;
staðurinn er kallaður Grikkjaklettur.
Hart í bak!“
Hún hafði augun hennar Salóme læðan sem ég missti í fyrra
og Ramazan hvernig hann starði á dauðann án þess að hvika,
heila daga í snjónum í Anatólíu
í frosti og sól
heila daga án þess að hvika aringuðinn smái.
Ferðalangur, ekki staðnæmast.
„Hart í bak“ muldraði stýrimaðurinn.… vinur minn sem hefur ekki lengur fast skiprúm
gæti hætt þessu flakki
haldið sig inni í litlu húsi með myndum
og leitað að gluggum bak við rammana.
Skipsklukkan sló
eins og hent væri pening úr ríki sem leið undir lok
og minnti á ölmusur horfinna tíma.„Undarlegt“, tók kafteinninn aftur til máls.
„Þessi klukka – kannski vegna þess hvaða dagur er í dag –
hún minnir mig á aðra, sem var í klaustrinu.
Það var munkur sem sagði mér frá henni
hálfgalinn, draumóramaður.Þegar þurrkarnir miklu voru,
– fjörtíu ár og ekki dropi úr lofti –
lagðist af byggð hér á eynni;
fólkið dó og jörðin ól snáka.
Á þessum skaga voru þeir milljónum saman,
digrir eins og mannsfætur
og eitraðir.
Nikulásarklaustrið var þá í umsjá
munka frá sankti Basil
og þeir gátu hvorki erjað ræktarlöndin
né haldið hjörðum til beitar;
kisurnar sem þeir fóðruðu urðu þeim til bjargar.
Í hvert sinn sem morgunn reis sló klukkan
og liðið hélt til orrustu.
Þær börðust allan daginn þar til sú stund kom
að hún kallaði til kvöldverðar.
Eftir mat sló klukkan aftur
og þær gengu út og börðust næturlangt.
Það var sjón að sjá þær, menn létu þess getið,
sumar haltar, sumar blindar,
vantaði trýni, vantaði eyra, feldurinn tættur.
Fjögur klukkuslög á dag og þannig leið tíminn,
mánuðir, ár.
Ævinlega meiddar og sárar en fullar af hamslausri þrjósku
útrýmdu þær snákunum og að lokum
hurfu þær sjálfar; þoldu ekki svo mikið eitur.
Eins og sokkið skip
sem skilur ekki eftir nein ummerki á sjónum
hvorki mjálm né hljóm í klukku.
Tökum strikið!
Hvað gátu þær gert þessir ræflar
sem börðust og drukku daga og nætur
eitrað blóðið úr skriðkvikindunum.
Árhundruð af eitri; kynslóðir af eitri.“
„Tökum strikið“ endurtók stýrimaður og lét sér fátt um finnast.
Miðvikudagur, 5. febrúar 1969
Sagan um kettina í Nikulásarklaustrinu á Kýpur er til í ritum frá 15. og 16. öld. Um hana má t.d. lesa í greininni Cats, Snakes and Poetry: A Study of Seferis‘ “The Cats of Saint Nicholas” eftir Katerina Krikos-Davis sem birtist í Journal of Modern Greek Studies, 2. tbl., 2. árg. í október 1984. Í þeirri grein er rökstutt að ljóðið tengist andófi skáldsins gegn herforingjastjórninni sem ríkti á Grikklandi frá 1967 til 1974. Það birtist fyrst í ritinu Δεκαοχτώ κείμενα (Átján textar), sem svo hét því herforingjastjórnin krafðist þess að heiti bóka lýsti innihaldi þeirra. Skáldin sem birtu efni í þessu riti gáfu henni langt nef með því að láta bók með 18 textum heita þetta.
Tilvitnunin ofan við ljóðið er úr leikritinu Agamemnon eftir Æskílos. Ég nota þýðingu Helga Hálfdanarsonar.
Í línum 7 til 12 minnist Seferis katta sem hann átti tveim áratugum áður en hann orti þetta ljóð, högnans Ramazan sem dó í Ankara í Tyrklandi í október 1949 og læðunnar Túti sem lést ári fyrr. Seferis átti heimili í Ankara meðan hann var sendiherra Grikklands í Tyrklandi. (Um þetta má lesa á bls. 283 í ævisögu skáldsins, George Seferis: Waiting for an Angel eftir Roderick Beaton, útg. Yale University Press, 2003). Tólfta línan vísar í eftirmæli sem Seferis orti þegar læðan Túti dó.
Hægt er að finna ljóðið á frummálinu allvíða á vefnum, t.d. á síðunni http://users.uoa.gr/~nektar/arts/tributes/george_seferis/oi_gates_t_ai_nikola.htm